Lífið

Leðurblökukonan hörfar frá Twitter

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ruby Rose gerði garðinn frægan í Orange is the New Black.
Ruby Rose gerði garðinn frægan í Orange is the New Black. vísir/getty
Leikkonan Ruby Rose hefur eytt Twitter-reikningi sínum eftir að hafa orðið fyrir gríðarlegu netníði. Rose var á dögunum ráðin til að fara með hlutverk Leðurblökukonunnar í nýrri sjónvarpsþáttaröð og eru ekki allir á eitt sáttir með ráðninguna.

Það er þó ekki vegna þess að Rose er léleg leikkona, þvert á móti, eins og leikur hennar í þáttaröðinni Orange is the New Black er til vitnis um. Hinsegin aðdáendur Leðurblökukonunnar telja ótækt að Rose fari með hlutverkið vegna þess að leikkonan er ekki lesbísk eins og söguhetjan. Ruby Rose hefur þó lengi látið baráttu hinsegin fólks sig varða, eða nánast allt frá því að hún kom út úr skápnum tólf ára gömul. Rose er flæðigerva (e. gender fluid) og upplifir sig því stundum sem karlmann og stundum sem konu.

Leikkonan sendi frá sér röð tísta áður en hún lokaði aðgangi sínum. Þar gaf hún lítið fyrir gagnrýnina og sagði hana vera það „vitlausasta sem hún hefði heyrt.“ Á undanförnum árum hafi hún mátt búa við gagnrýni um kynhneigð hennar, að mörgum þætti hún „of samkynheigð“ fyrir ýmis hlutverk, og því skyti skökku við að núna væri hún gagnrýnd fyrir að vera ekki „nógu samkynhneigð“ til að leika Leðurblökukonuna.

Hún kallaði eftir því að hinsegin samfélagið stæði saman, samstaðan geri það „óstöðvandi“ að mati Rose. Hins vegar hafi niðurrif ekkert gott í för með sér. „En hey, við elskum áskoranir,“ skrifaði Rose.

Leikkonan lokaði ekki aðeins Twitter-reikningi sínum, hún herti jafnframt reglurnar um athugasemdaskrif við færslur hennar á Instagram. Þar skrifaði hún til að mynda í liðinni viku að hana hafi dreymt um hlutverk Leðurblökukonunnar frá því í barnæsku. Ofurhetjan sé öflug fyrirmynd fyrir ungt hinsegin fólk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×