Innlent

Snyrtivörur íslenskra birgja uppfylltu ekki öryggisskilyrði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Engin snyrtivaranna innihélt þó óleyfileg innihaldsefni.
Engin snyrtivaranna innihélt þó óleyfileg innihaldsefni. Vísir/Anton Brink
Tólf snyrtivörur af þrjátíu og tveimur, eða 38%, reyndust ekki uppfylla skilyrði EES-löggjafar um öryggi snyrtivara á markaði. Þetta kemur fram í úttekt Umhverfisstofnunar sem stóð nýlega fyrir eftirliti með húðsnyrtivörum hjá níu birgjum á Íslandi.

Í frétt Umhverfisstofnunar segir að mikilvægt sé að þeir sem setja á markað snyrtivörur hérlendis tryggi að vörurnar uppfylli kröfur EES. Einkum þarf að hafa þær í huga þegar fluttar eru inn snyrtivörur sem upprunnar eru frá löndum utan EES, þar sem aðrar reglur gilda um markaðssetningu þeirra.

Við eftirlit hjá níu birgjum, sem eru umsvifamiklir í innflutningi á húðsnyrtivörum utan EES, kom í ljós að tólf snyrtivörur af þrjátíu og tveimur uppfylltu ekki alfarið áðurnefnd skilyrði. Af þessum vörum voru tíu ekki skráðar í vefgátt og þar af vantaði að tilgreina ábyrgðaraðila á umbúðum fyrir sex vörur. Tvær vörur skorti svo upplýsingar um ábyrgðaraðila á umbúðum en voru þó skráðar í gáttina.

Jafnframt var athugað hvort vörurnar innihéldu óleyfileg innihaldsefni en svo reyndist ekki vera. Gerðar voru athugasemdir við vörur frá fimm birgjum og þeim veittur frestur til að gera fullnægjandi úrbætur. Nánar má lesa eftirlitið á heimasíðu Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×