Í greininni, sem ber yfirskriftina „Óviðeigandi framkvæmd í höfuðborginni okkar,“ setur Sturla út á niðurrif Landsímahússins á horni Kirkjustrætis og Thorvaldsenstrætis sem fær að víkja fyrir nýrri hótelbyggingu. Hann er ekki sá fyrsti sem setur út á framkvæmdina, en Vísir hefur reglulega greint frá sambærilegri gagnrýni - auk svaranna við henni. Gagnrýnin hefur hvað helst endurspeglað áhyggjur fólks af röskun á gröfum í Víkurgarði, sem einnig er kallaður Fógetagarður.
Sturla segir að framkvæmdirnar séu til marks um „virðingarleysið“ sem núverandi eigendur reitsins og borgaryfirvöld sýna Fógetagarðinum - „og hinum forna grafreit sem hefur verið raskað sem og skipulagi á Alþingisreitnum.“
Þar að auki segir Sturla að hótelrekstur á þessu horni muni „setja svæðið í mikið uppnám vegna þeirrar umferðar sem fylgir slíkum rekstri í næsta nágrenni við Alþingi,“ eins og hann orðar það.
Í grein sinni setur Sturla jafnframt út á listarverkið „Svörtu keiluna,“ sem stendur fyrir framan alþingishúsið. Um er að ræða verk eftir spænska listamanninn Santiago Sierra sem líkist helst bjargi með sprungu í því miðju. Sierra gaf íslensku þjóðinni verkið í janúar árið 2012 og er því ætlað að vera minnisvarði um borgaralega óhlýðni. Staðsetningu verksins var mótmælt á sínum tíma, á þeim forsendum að það þótti raska heildarmynd Austurvallar.
Sturlu þykir ekki mikið til verksins koma og þykir honum ankannalegt að það skuli standa á milli styttanna af Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konunni sem kjörin var á þing. Hann leiðir sig að þeirri niðurstöðu að stjórnendur borgarinnar hafi í raun sett steininn á þennan stað „til háðungar Alþingi Íslendinga,“ segir Sturla.
„Það er fátt uppbyggilegt við þetta „listaverk“ og er borginni til skammar. Borgaryfirvöld ættu að fagna 100 ára afmæli fullveldis þjóðarinnar með því að láta bera grjótið í burtu.“
Dagur svarar
Í lok greinar sinnar skorar Sturla á borgarstjórann að stöðva framkvæmdirnar við Kirkjustræti og fjarlægja fyrrnefnt listaverk. Það eigi betur heima annars staðar.„Stjórnendur höfuðborgarinnar geta ekki komið fram með þeim hætti sem gert er með fullkomnu virðingarleysi við þjóðþingið og umhverfi þess í miðju borgarinnar.“Í færslu sinni á Facebook bregst Dagur við þessum skrifum Sturlu. Borgarstjórinn segir að eftir „nokkrar deilur náðist full sátt milli framkvæmdaaðila og Alþingis fyrir þremur árum síðan, sem birtist meðal annars í því að Alþingi dró til baka kæru sína á skipulagið í maí 2015.“ Þetta hafi átt sér stað eftir að Sturla var hættur á þingi, en hann sagði skilið við Alþingi árið 2009.
Þar að auki hafi deilum um staðsetningu Svörtu keilunnar lokið árið 2012 með því að verkið var flutt á núverandi stað, skrifar Dagur og vísar í fjölmiðlaumfjöllun þess tíma máli sínu til stuðnings. Færslu borgarstjóra má sjá hér að neðan.