Erlent

Yfir 800 franskar brýr í hættu á að hrynja

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Samkvæmt rannsókninni eru að minnsta kosti 840 franskar brýr í hrunhættu.
Samkvæmt rannsókninni eru að minnsta kosti 840 franskar brýr í hrunhættu. Vísir/Getty
Rannsókn sem fyrirskipuð var af frönsku ríkisstjórninni sýnir fram á að um 840 brýr í Frakklandi eru í svo slæmu ásigkomulagi að þær eiga á hættu að hrynja á næstu árum. Fréttaveitan AP greinir frá þessu.

Ríkisstjórn forsetans Emmanuels Macron hafði þegar tilkynnt að hún ætlaði sér að auka fjárframlög til innviða landsins, en nú hefur áherslan á viðhald og uppbyggingu innviða aukist enn frekar, eftir hrun brúarinnar í Genúa á þriðjudag.

Rannsóknin náði yfir þær 12.000 brýr sem eru á ábyrgð ríkisstjórnar Frakklands. Samkvæmt rannsókninni þarfnast þriðjungur brúnna einhverra lagfæringa, en 7% þeirra, um það bil 840 brýr, eiga það á hættu að hrynja á næstu árum, verði ekkert að gert. Rannsóknin náði ekki til þeirra þúsunda brúa sem eru í umsjón einkaaðila eða sveitar- og borgarstjórna í landinu.

Í skýrslu sem inniheldur úrdrátt úr rannsókninni sem ríkisstjórnin gaf út í síðasta mánuði er fyrri ríkisstjórn kennt um ástandið. Segir þar að útgjöld til vegamála hafi verið of lág og of fátíð. Þá eru aukin umferð og öfgakennt veður í auknum mæli einnig tekin til sem ástæður fyrir ástandinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×