Anníe Mist Þórisdóttir er í langbestu stöðunni af íslensku stelpunum í þriðja sætinu en staðan er ekki eins góð hjá hinum tveimur vonarstjörnunum okkar, Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur.
Anníe Mist er með 276 stig eða 62 stigum á eftir efstu konu sem er nýliðinn Laura Horvath frá Ungverjalandi. Ríkjandi meistari, Tia-Clair Toomey er síðan aðeins tólf stigum frá toppsætinu og 50 stigum á undan Anníe Mist.
Brekkan er aftur á móti farin að vera ansi brött fyrir þær Katrínu Tönju Davíðsdóttur og Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur sem var báðum spáð mjög góðu gengi á leikunum.
Katrín Tanja Davíðsdóttir er í sjötta sætinu með 226 stig sem þýðir að hún er 100 stigum á eftir Tiu-Clair Toomey og 112 stigum á eftir Lauru Horvath. Þriðja greinin hennar var dýrkeypt en þar endaði Katrín Tanja aðeins í 36. sæti. Hún hélt sér kannski inn á topp sex en missti af dýrmætum stigum.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er síðan í tíunda sæti með 210 stig en hún er því 116 stigum á eftir Tiu-Clair Toomey og 128 stigum á eftir Lauru Horvath. Ragnheiður Sara hefur aldrei endaði ofar en tíunda sæti í grein til þessa en hún varð í 21. sæti í fyrstu grein og hefur verið að hækka sig hægt og rólega.

Anníe Mist Þórisdóttir er hinsvegar í mun betri stöðu á sínum níundu heimsleikum. Anníe Mist stóð sig best af íslensku stelpunum í fyrra og komst þá á pall í fimmta stig með því að ná í þriðja sætið.
Oddrún Eik Gylfasóttir er að keppa á sínum fyrstu heimsleikum og er að ná sér í mjög dýrmæta reynslu. Það bjóst enginn við henni í toppbaráttunni á sínu fyrsta móti. Hún er núna í 28. sæti.
Stelpurnar fá nú einn hvíldardag til að jafna sig eftir þennan rosalega miðvikudag sem var sá erfiðasti í sögu heimsleikanna í CrossFit.
Þrjár greinar eru framundan á föstudaginn og þar þurfa þær Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir að eiga frábæran dag ætli þær sér að vera með í baráttunni um titilinn hraustasta kona heims í ár.
Ef við vitum samt eitthvað um þær þá er það að þær gefast aldrei upp. Það er því ekki hægt að afskrifa það að þær komi sterkar til baka á næstu dögum.