Erlent

20 létust í flugslysi í Sviss

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Flugvél af tegundinni Junkers Ju-52.
Flugvél af tegundinni Junkers Ju-52. Vísir/Getty
20 manns fórust í flugslysi í svissnesku ölpunum í gær. Vélin, sem var frá árinu 1939 og af gerðinni Junkers Ju-52, hrapaði í hlíðum fjallsins Piz Segnas og hafnaði í 2500 metra hæð yfir sjávarmáli.

Fórnarlömb slyssins voru ellefu karlar og níu konur. Eftirlifendur slyssins voru engir.

Tildrög slyssins eru ekki ljós, en rannsókn á þeim er hafin. Sökum aldurs var vélin ekki búin flugrita og telja rannsakendur að sú staðreynd muni torvelda rannsóknina nokkuð. 

Vélin var á leið frá Locarno í Suður-Sviss til Duebendorf þegar slysið átti sér stað.

Haft er eftir Daniel Knecht, talsmanni svissneska samgönguöryggisráðsins, að útlit sé fyrir að vélin hafi verið lóðrétt í loftinu þegar hún hrapaði.

Haft er eftir rannsakendum að þeir telji ekki að vélin hafi lent í árekstri við aðra vél, né heldur þá að vír eða önnur hindrun hafi orðið á vegi vélarinnar, sem hefði getað valdið því að vélin hrapaði til jarðar. Þá segja rannsakendur engin ummerki vera um að átt hafi verið við búnað vélarinnar í þeim tilgangi að granda henni.

Félagið sem gerði út vélina gerir einnig út tvær aðrar flugvélar af sömu tegund. Ferðum þeirra véla hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Þetta er annað flugslysið í Sviss um helgina, en í gær fórst fjögurra manna fjölskylda í flugslysi nálægt Hergilswilbæ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×