Erlent

Telja sig vita hver eitraði fyrir Skripal

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Feðginin eru bæði á batavegi eftir að hafa orðið fyrir eitrun í mars.
Feðginin eru bæði á batavegi eftir að hafa orðið fyrir eitrun í mars. Guardian
Talið er að lögreglan á Bretlandi hafi borið kennsl á þá sem bera ábyrgð á taugaeitursárás á rússneska fyrrverandi njósnarann Sergei Skripal. Í frétt breska miðilsins Guardian segir að stjórnvöld séu handviss um Rússar hafi tekið þátt í morðtilræðinu á Sergei og dóttur hans Júlíu. Þá leiti lögregla að fleiri en einum sem hún grunar um verknaðinn.

Samkvæmt the Guardian fundust hinir grunuðu með upptökum úr eftirlitsmyndavélum og gögnum um hverjir komu til Bretlands stuttu fyrir árásina.

Breska lögreglan undirbýr nú rannsókn á andláti Dawn Sturgess sem lést fyrr í þessum mánuði, átta dögum eftir að hafa komist í snertingu við novichok. Gengið er út frá því að eitrið sem varð Sturgess að bana hafi komið úr sömu lögun og eitrið sem beitt var gegn Skripal-feðginunum í mars.

Maki Sturgess, Charlie Rowley, veiktist einnig lífhættulega en virðist þó vera á batavegi. Talið er að Sturgess hafi komist í snertingu við tífalt meira magn af taugaeitrinu en Skripal-feðginin. Rannsakendur ganga út frá því að eitrið hafi verið geymt í ilmvatnsflösku sem Sturgess hafði handleikið.

Hún er jafnvel talin hafa sprautað því beint á sig, með fyrrnefndum afleiðingum. Ekki er ljóst á þessari stundu hvort að ilmvatnsflaskan hafi verið púslið sem vantaði í rannsókn bresku lögreglunnar. Engu að síður virðist uppgötvunin hafa komið töluverðri hreyfingu á málið.


Tengdar fréttir

Pútín telur eitrunarásakanir tilhæfulausar

Vladimír Pútín þvertekur fyrir það að yfirvöld í Rússlandi standi á bakvið árásir á fjóra einstaklinga með taugaeitrinu Novichok í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×