Erlent

Fara fram á handtöku fyrrverandi forseta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rafael Correa var forseti Ekvadors á árunum 2007-2017.
Rafael Correa var forseti Ekvadors á árunum 2007-2017. Vísir/getty
Dómstóll í Ekvador hefur gefið út handtökuskipun á hendur fyrrverandi forseta landsins, Rafael Correa. Hann er talinn hafa tengsl við rán á pólitískum andstæðingi hans árið 2012.

Correa, sem býr ásamt konu sinni í heimalandi hennar Belgíu, neitar öllum ásökunum. Dómarinn sem gaf út handtökuskipunina sagði í samtali við þarlenda miðla að hann væri búinn að gera Interpol viðvart og að hann hafi farið fram á að forsetinn fyrrverandi yrði framseldur.

Þingmanninum Fernando Balda var rænt í höfuðborg Kolumbíu, Bogotá, eftir að hafa flúið landið. Hafði hann þá átt í háværum og opinberum útistöðum við Correa, sem þá var forseti landsins. Lögreglan hafði hendur í hári ræningja hans aðeins örfáum klukkustundum eftir að tilkynning barst um ránið á Balda. Þingmaðurinn ásakaði síðar Correa um að hafa staðið á bakvið mannránið.

Fernando Balda, hér fyrir miðju, segir Correa hafa staðið á bakvið mannránið árið 2012.Vísir/epa
Balda hafði á þeim tíma verið ákærður fyrir að standa á bakvið misheppnað valdarán í landinu árið 2010, þegar hann reyndi að koma Correa frá völdum. Þingmaðurinn hlaut eins árs fangelsisdóm fyrir að stofna þjóðaröryggi í hættu.

Fyrrnefndur dómari sagði að hann hafi gefið út handtökuskipunina því að Correa hafi skrópað í réttarsal. Þangað hafði hann verið boðaður til að liðsinna við rannsóknina á mannráninu. Þess í stað ákvað Correa að gefa sig fram við ekvadorska sendiráðið í Brussel - sem dómarinn sagði að honum hafi ekki verið heimilt að gera.

Correa, sem var forseti Ekvadors frá árinu 2007-2017, hefur ætíð neitað að hafa haft nokkuð með málið að gera. Þess í stað segir hann ásakanirnar runnar undan rifjum núverandi forseta landsins, Lenín Moreno, en þeir voru áður bandamenn í stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×