Erlent

Fylgdist með táningsstelpum sem hann þjálfaði með tölvunjósnabúnaði

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla segir að maðurinn hafi fengið aðgang að tölvum stúlknanna án þess að vekja grunsemdir með því að senda þeim hlekki í einkaskilaboðum.
Lögregla segir að maðurinn hafi fengið aðgang að tölvum stúlknanna án þess að vekja grunsemdir með því að senda þeim hlekki í einkaskilaboðum. Vísir/Getty
Lögregla í Noregi hefur þjálfara grunaðan um að hafa platað stúlkur á táningsaldri sem hann þjálfaði til að hlaða niður njósnaforrit í tölvur sínar. Maðurinn á þannig að hafa getað fylgst með stúlkunum í vefmyndavélum þeirra og fylgst með tölvunotkun stúlknanna án þeirrar vitundar.

NRK greinir frá málinu. Lögregla segir að maðurinn hafi fengið aðgang að tölvum stúlknanna án þess að vekja grunsemdir með því að senda þeim hlekki í einkaskilaboðum. Þegar þrýst var á hlekkinn hlóð tölvan niður njósnaforriti þjálfarans.

Á maðurinn að hafa getað fylgst með stúlkunum í vefmyndavélinni, skoðað myndir í tölvum þeirra og hvað þær skrifuðu á samskiptamiðlum.

Um þrjátíu manns

Cathrin Remøy hjá norsku lögreglunni segir í samtali við NRK að ljóst sé að flestar stúlkurnar hafi ekki haft hugmynd um að brotið hafi verið á þeim fyrr en lögregla hafði samband við þær.

Maðurinn á að hafa starfað sem þjálfari hjá íþróttafélagi í Sunnmøre, sem er syðsti hluti fylkisins Møre og Romsdal á vesturströnd Noregs.

Lögregla segir ekki ljóst hve lengi maðurinn hafi stundað njósnirnar. Hafi verið rætt við um tuttugu manns og á enn eftir að ræða við um tíu til viðbótar. Flest fórnarlömbin eru stúlkur þó að einnig hafi einhverjir piltar orðið fyrir barðinu á manninum.

Snagi búinn myndavél

Rannsókn á málinu hófst á síðasta ári þegar tilkynnt var um að snagi í búningsklefa var búinn myndavél. Var þjálfarinn ákærður fyrir að hafa myndað stúlkurnar í leyni. Við frekari rannsókn og húsleit fundust úr búin myndavélum og kom í ljós að hann hafi myndað fólk í leyni í verslunum og strætisvögnum. Nokkurt magn barnakláms fannst einnig í tölvum mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×