Bandalag háskólamanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu mála í kjaradeilu ljósmæðra við íslenska ríkið. Bandalagið segir mikla hagsmuni í húfi, sú þjónusta sem ljósmæður veiti sé einn af hornsteinum velferðarsamfélagsins.
Í yfirlýsingu sem BHM sendi frá sér í dag segir að bandalagið hafi ítrekað bent stjórnvöldum á vankanta stofnanasamninga hjá ríkisstofnunum, fjárveitingar til stofnanna séu oft ekki í samræmi við þarfir þeirra sem hafi áhrif á launamyndun starfsmanna.
Afleiðing þess sé viðvarandi skortur á starfsfólki og ónóg nýliðun í mikilvægum starfsstéttum innan BHM. Þetta sé óviðunandi ástand sem skaði langtímahagsmuni samfélagsins að mati bandalagsins.
„Tannhjól opinberrar þjónustu mega ekki stöðvarst og þurfa samningsaðilar hverju sinni að axla þá ábyrgð að ná samningum sem mest sátt ríki um,“ segir í yfirlýsingunni.
