Klukkan fjögur í nótt tóku gildi tilskipanir Donald Trump Bandaríkjaforseta um 25 prósenta toll á ýmsar vörur sem fluttar eru inn til Bandaríkjanna frá Kína. Þar má nefna vörur eins og bíla, tölvudrif og ýmsan iðnaðarvarning. Örfáum klukkustundum eftir að tollarnir tóku gildi lýsti kínverska viðskiptaráðuneytið því yfir að Kínverjar neyddust til að svara í sömu mynt.
Lu Kang talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir Kínverja almennt mótfallna einhliða viðskiptahindrunum og vilji að viðskiptadeilur séu leystar af raunsæi í samningum.

Eins og staðan er núna hafa ríkin tvö lagt tolla á vörur frá hvort öðru upp á 34 milljarða dollara eða um 3.600 milljarða íslenskra króna. Trump Bandaríkjaforseti hefur síðan hótað að leggja tolla á allar innfluttar vörur frá Kína að verðmæti um 500 milljarða dollara á ári, eða 52.500 milljarða króna.
Kínverjar hafa meðal annars lagt 25 prósenta toll á bíla og ýmsar landbúnaðarafurðir frá Bandaríkjunum sem munu hafa mikil áhrif í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna þar sem Trump naut mikils stuðnings í forsetakosningunum.
Evrópusambandið, Kanada og Mexíkó hafa einnig brugðist við hækkun tolla í Bandaríkjunum á innfluttar vörur frá þeim. Frekari viðbrögð eru í undirbúningi innan Evrópusambandsins.
Dan Pruzin talsmaður Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar varar við afleiðingunum af vaxandi verndaraðgerðum stórveldanna og hvetur þau til samninga.
„Afleiðingar þessarra aðgerða eru nú þegar farnar að segja til sín. Fyrirtæki eru hikandi í fjárfestingum, það er vaxandi skjálfti á mörkuðum og verð á sumum vörum fer hækkandi. Ef þetta ástand magnast mun það aðeins leiða til enn meiri áhrifa sem munu bitna á störfum fólks og vexti þeirra ríkja sem hlut eiga að máli og senda skjálfta í gegnum allt efnahagslíf heimsins,” segir Dan Pruzin.