Erlent

Lúðvík prins skírður í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Katrín og Lúðvík í apríl síðastliðnum. Lúðvík er nú um ellefu vikna gamall.
Katrín og Lúðvík í apríl síðastliðnum. Lúðvík er nú um ellefu vikna gamall. Vísir/Getty
Lúðvík prins, sonur Katrínar, hertogaynju af Cambridge, og Vilhjálms Bretaprins, verður skírður í Konungslegu kapellunni við Höll heilags Jakobs í London síðar í dag.

Það er erkibiskupinn af Kantaraborg sem mun stýra athöfninni, sem hefst klukkan 15 að íslenskum tíma. BBC  greinir frá því að þetta verði í fyrsta sinn sem fjölskyldan sést opinberlega öll saman frá því að Lúðvík kom í heiminn.

Lúðvík Artúr Karl fæddist þann 23. apríl síðastliðinn og er því um ellefu vikna gamall. Hann er þriðja barn Katrínar og Vilhjálms en fyrir áttu þau Georg, fjögurra ára, og Karlottu, þriggja ára.

Lúðvík mun klæðast sama skírnarkjól og eldri systkini sín. Samkvæmt hefð verður vatn úr fljótinu Jórdan notað í athöfninni.

Tilkynnt verður hverjir verða guðforeldrar Lúðvíks síðar í dag. Veðbankar telja líklegast að Miguel Head, einkaritari Vilhjálms sem lætur af störfum síðar í þessum mánuði, verði guðfaðir drengsins.

Lúðvík er fimmti í röðinni til að erfa bresku krúnuna á eftir Karli afa sínum, Vilhjálmi föður sínum, og tveimur eldri systkinum sínum.


Tengdar fréttir

Prins er fæddur

Drengurinn kom í heiminn klukkan 11:01 í morgun og heilsast bæði móður og barni vel.

Nýi prinsinn kominn með nafn

Nýjasti meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar, þriðja barn þeirra Vilhjálms Bretaprins og Katrínar hertogaynju af Cambridge, hefur fengið nafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×