Skoðun

Mannaflaspá fyrir heilbrigðiskerfið

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Nær daglega berast fréttir af „mönnunarvanda“ innan heilbrigðiskerfisins. Um langvarandi og alvarlegan vanda er að ræða. Hvers vegna tekst okkur ekki að manna starfsstéttir sem gegna lykilhlutverki í heilbrigðis- og velferðarþjónustu hér á landi? Lítum á nokkrar nærtækar ástæður.

Í fyrsta lagi tekur launasetning þessara stétta almennt ekki nógu vel mið af menntun þeirra, sérfræðiþekkingu og þróun starfanna. Fagstéttir þar sem konur eru í meirihluta eru enn að berjast fyrir viðurkenningu á sérfræðiþekkingu sinni og ábyrgð innan heilbrigðiskerfisins. Ástæðurnar liggja djúpt í samfélaginu og furðulega erfitt er að uppræta gamaldags hugsunarhátt í garð kvennastétta. Í öðru lagi búa margir heilbrigðisstarfsmenn við ófullnægjandi starfsumhverfi. Augljósasta dæmið er húsnæðiskostur Landspítalans, sem er gamall, úr sér genginn og jafnvel heilsuspillandi. Í þriðja lagi virðist engin stefna vera til um það hvernig manna eigi þessar mikilvægu stéttir til framtíðar. Nýjasta dæmið er aðsókn í hjúkrunarfræðinám við HA. Hún er margföld þau pláss sem skólinn getur boðið vegna fjárhagsrammans sem honum er settur. Þannig er lokað á þau sem þó vilja leggja fyrir sig nám í heilbrigðisgeiranum.

Í ljósi þessa og m.t.t. öldrunar þjóðarinnar undirrituðu þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sérstaka yfirlýsingu við gerð kjarasamninga aðildarfélaga BHM við ríkið í febrúar sl. Þar kemur fram að greina skuli mannaflaþörf í heilbrigðiskerfinu til næstu 5–10 ára og fullvinna heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Í yfirlýsingunni er einnig kveðið á um að umbætur á starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsmanna ríkisins verði gerðar í samráði við aðildarfélög innan BHM.

Ég ætla að fullyrða hér að yfirlýsingin hafi vegið þungt þegar félagsmenn aðildarfélaga BHM samþykktu kjarasamningana í vetur, enda löngu tímabært að áætla mönnun heilbrigðiskerfisins til langs tíma. Miklu skiptir að forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra skili því sem hér var lofað áður en sest verður að samningaborði á ný árið 2019.

Höfundur er formaður BHM




Skoðun

Sjá meira


×