Skoðun

Skattaeilífðarvélin

Ólafur Stephensen skrifar
Í byrjun mánaðarins var frá því greint að fasteignamat atvinnuhúsnæðis vegna ársins 2019 hefði hækkað um 15% frá yfirstandandi ári. Á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þorri fyrirtækja er staðsettur, hækkar matið um 17,2% milli ára. Á árunum 2014-2019 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 65,2%. Að sama skapi þyngist skattbyrði fyrirtækja vegna fasteignaskatta, sem eru reiknaðir sem hlutfall af fasteignamati. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir Félags atvinnurekenda hafa eingöngu þrjú af stærstu sveitarfélögum landsins, Hafnarfjörður, Kópavogur og Akranes, lækkað álagningarprósentuna til að mæta gífurlegum hækkunum fasteignamats.

Í síðustu viku benti greiningardeild Arion-banka á að stóru fasteignafélögin myndu neyðast til að hækka leiguna til að mæta hækkun fasteignagjaldanna, ella myndi framlegð þeirra skerðast verulega. Leigusamningar flestra þessara félaga innihalda ákvæði um að leiga hækki ef opinberar álögur þyngjast. „Eftir launahækkanir síðastliðinna ára, ásamt því að horfur eru á harðri kjarabaráttu á vinnumarkaði á komandi mánuðum, má velta fyrir sér hversu mikið svigrúm sé til staðar hjá atvinnurekendum til að takast á við hærri leigukostnað. Að okkar mati er það svigrúm lítið og því hætta á að hækkun leiguverðs verði velt áfram og út í almennt verðlag,“ segir í Markaðspunktum greiningardeildarinnar frá 21. júní.

Við þetta bætist að vegna þess að Þjóðskrá Íslands notar frá 2014 eingöngu svokallaða tekjuaðferð til að reikna út fasteignamat atvinnuhúsnæðis, þýðir hækkun á leigutekjum að fasteignamatið hækkar. Þá hækkar skattbyrðin, sem aftur leiðir af sér hækkun leigunnar og þannig koll af kolli. Þannig er orðin til nokkurs konar eilífðarvél, sem malar sveitarfélögunum gull í formi síhækkandi tekna af fasteignagjöldum.

Hér verður að spyrna við fótum. Atvinnurekendur hafa talað fyrir daufum eyrum stjórnmálamanna í flestum stóru sveitarfélögunum. Eitt af aðildarfyrirtækjum FA hefur nú höfðað mál á hendur Þjóðskrá og Reykjavíkurborg vegna útreiknings og álagningar fasteignagjalda. Eins og stundum áður er atvinnulífið tilneytt að leita til dómstóla til að rétta hlut sinn.



Höfundur er framkvæmda­stjóri Félags atvinnurekenda






Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×