Það eru þessi tvö grátlegu töp sem þýða væntanlega að Búlgarir taka þriðja sætið af íslenska liðinu og komast þar með í milliriðilinn.
Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson kom með 16 stig af bekknum og var stigahæstur hjá íslenska liðinu í leiknum. Hlynur setti niður fjóra þrista en hann var eini leikmaður íslenska liðsins sem var að hitta fyrir utan þriggja stiga línuna.
Búlgarir voru aftur á móti sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna. Þeir hittu úr 15 af 30 þriggja stiga skotum sínum og fengu 24 fleiri stig úr þriggja stiga skotum.
Haukur Helgi Pálsson var mjög góður framan af leik en gaf eftir í lokin. Hann var með 14 stig og 6 stoðsendingar en skoraði lítið í lokin.

Búlgarir klikkuðu á tveimur vítaskotum rétt fyrir leiklok og Haukur Helgi Pálsson fékk þá opið þriggja stiga skot sem skoppaði á hringnum. Haukur fékk þarna tækifæri til að tryggja íslenska liðinu sigur en því miður rataði ekki þetta lokaskot í körfuna.
Alveg eins og í fyrri leiknum á móti Búlgörum var það slæmur fjórði leikhluti sem fór illa með íslensku strákana. Búlgarir unnu fjórða leikhlutann 23-18 og tryggðu sér sigurinn.
Íslenska liðið gerði mjög vel í að vinna upp tíu stiga forskot Búlgara í þriðja leikhluta og komast síðan mest átta stigum yfir. Sóknarleikurinn fraus hinsvegar í fjórða leikhlutanum og Búlgarir nýttu sér það.
Íslensku skytturnar voru ekki í stuði
Íslensku skytturnar voru ekki að hitta vel úr þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Íslenska liðið hitti aðeins úr 3 af 18 þriggja stiga skotum sínum (17 prósent) ef við tökum út frábæra nýtingu fyrirliðans.
Það voru þó 18 tapaðir boltar, margir hverjir óþvingaðir og upp úr þurru, sem fóru einna verst með liðið.
Leikurinn var annars sveiflukenndur og íslenska liðið átti bæði mjög góða kafla og mjög slæma kafla.
Liðið byrjaði bæði þriðja og fjórða leikhlutann mjög illa og það kom í bakið á liðinu þegar upp var staðið. Góð barátta og öflugur karkter kom strákunum aftur inn í leikinn en á endanum höfðu Búlgarir heppnina með sér.

Nú dugar ekkert annað en sigur á móti Finnum í lokaleiknum því annars er íslenska liðið úr leik. Finnar mæta hinsvegar með alla sína bestu leikmenn þar á meðan NBA-stjörnuna Lauri Markkanen.
Finnar eru líka í mikilli keppni við Tékka um sigur í riðlinum og ætla sér líka að hefna fyrir tapið í fyrri leiknum í Laugardalshöllinni. Verkefnin verða því ekki mikð erfiðari fyrir íslenska landsliðið.
Stig íslenska liðsins í leiknum:
Hlynur Bæringsson 16 stig, 7 fráköst, hitti úr 4 af 6 3ja stiga skotum
Haukur Helgi Pálsson 14 stig, 6 stoðsendingar
Martin Hermannsson 14 stig
Kristófer Acox 12 stig, 5 fráköst, 3 stolnir
Hörður Axel Vilhjálmsson 8 stig, 8 stoðsendingar
Tryggvi Snær Hlinason 8 stig, 6 fráköst
Jón Axel Guðmundsson 6 stig, 5 fráköst, 2 stolnir
Elvar Friðriksson 6 stig
Ægir Þór Steinarsson 2 stig