Innlent

Þinghlé gæti dregist fram á morgundaginn

Heimir Már Pétursson skrifar
Þinghlé gæti dregist fram á morgundaginn Búist er við að þingfundur standi fram á kvöld og að jafnvel þurfi að funda á morgun til að afgreiða þau mál sem samkomulag er um að klára áður en þing fer í sumarhlé. Þingmenn Miðflokksins saka stjórnarflokkana um að svíkja loforð um afgreiðslu á frumvarpi um vexti og verðbætur.

Samið hafði verið um að hver þingflokkur stjórnarandstöðunnar fengi eitt mál afgreitt fyrir þinglok. Frumvarpið sem Miðflokkur tefldi fram snýr að því að fjarlægða húsnæðisliðinn úr vísitölu neysluverðs. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði síðan fram frávísunartillögu á málið á Alþingi í dag sem fól í sér að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar til umfjöllunar.

Þingmenn flokksins fóru ítrekað í ræðustól í dag og fóru fram á atkvæðagreiðslu um málið og sakaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins stjórnarflokkana um svik.

„Frávísunartillaga er tillaga um að mál fái ekki afgreiðslu, sé ekki afgreitt. Svoleiðis að leggja fram slíka tillögu og koma í veg fyrir að málið fái eðlilega afgreiðslu í atkvæðagreiðslu felur í sér svik á því samkomulagi sem gert var,“ sagði Sigmundur Davíð.

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingisvísir/ernir
Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði meirihluta nefndarinnar hafa afgreitt málið með rökstuddri frávísunartillögu hinn 8. júní.

„Það tók Miðflokkinn semsagt fjóra daga, heila daga, að gera hér upphlaup í þingsal. Á þeim degi sem við töldum að væri lokadagur þings,“ sagði Óli Björn.

Þingmenn annarra stjórnarandstöðuflokka tóku undir gagnrýni Miðflokksins í löngum umræðum um fundarstjórn forseta sem töfðu þingstörf. Nokkrar atkvæðagreiðslur og umræður um persónuverndarfumvarp dómsmálaráðherra eru eftir og því er alls ekki ólíklegt að Alþingi þurfi einnig að koma til fundar á morgun.


Tengdar fréttir

Rifist á þingi um meint svik meirihlutans við Miðflokkinn

Til stóð að afgreiða ein átta mál með atkvæðagreiðslu við upphaf þingfundar en þess í stað hófst 40 mínútna umræða um frávísunartillögu á mál þingflokks Miðflokksins um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×