Oddvitar Sjálfstæðisflokksins og óháðra og Jákvæðs samfélags hafa undirritað málefnasamning um meirihlutasamstarf í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðisbæjar. Nýr meirihluti á ærin verkefni fyrir höndum því auk þess að starfa saman í meirihluta þurfa flokkarnir að sameina tvö rótgróin sveitarfélög í eitt.
Stóra verkefnið sem bíður nýrrar bæjarstjórnar er nýtt aðalskipulag sem mun þá ráða miklu um það hvernig bæjarfélagið byggist upp á næstu árum. Efst á blaði eru leikskólamál og að tengja byggðarkjarnana tvo betur saman.
Einar Jón Pálsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins og óháðra í Garði og Sandgerði, verður forseti bæjarstjórnar og Ólafur Þór Ólafsson, oddviti Jákvæðs samfélags í Garði og Sandgerði, verður formaður bæjarráðs.
Flokkarnir hafa ákveðið að staða bæjarstjóra verði auglýst og ráðið í hana út frá faglegum forsendum.
Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi hefst miðvikudaginn 20. júní.
Flokkarnir í meirihluta eru tveir stærstu flokkarnir í Sandgerði og Garði en Sjálfstæðisflokkurinn og óháðir hlaut alls 34,54% atkvæða og fékk 3 menn kjörna. Jákvætt samfélag fékk 29,25% atkvæða og 3 menn kjörna, líkt og D-listi.
Það er kannski táknrænt fyrir sameiningu sveitarfélaganna að flokksleiðtogarnir tveir hafa aðsetur hvor í sínum bænum. Einar Jón Pálsson, oddviti sjálfstæðisflokksins og óháðra, býr í Garði og Ólafur, oddviti Jákvæðs samfélags, býr í Sandgerði.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Nýr meirihluti þarf að sameina tvö sveitarfélög í eitt
Tengdar fréttir
Reyna að mynda meirihluta við óvenjulegar aðstæður
Ólafur segist vera bjartsýnn um að flokkarnir nái saman en segir þó að vissulega sé um óvenjulegar aðstæður að ræða vegna sameiningar bæjarfélaganna.