Innlent

Varað við neyslu eitraðra kræklinga úr Hvalfirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eitrið getur valdið kviðverkjum, niðurgangi, ógleði og uppköstum. Einkenni koma fram fljótlega eftir neyslu og líða hjá á nokkrum dögum.
Eitrið getur valdið kviðverkjum, niðurgangi, ógleði og uppköstum. Einkenni koma fram fljótlega eftir neyslu og líða hjá á nokkrum dögum. Vísir
Matvælastofnun varar við tínslu og neyslu á kræklingi úr Hvalfirði í sumar vegna eiturþörunga úr firðinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Fulltrúar Matvælastofnunar söfnuðu kræklingi 11 júní síðastliðinn við Fossá í Hvalfirði. Tilgangurinn var að kanna hvort almenningi sé óhætt að tína krækling í Hvalfirði. Niðurstöður mælinga leiddu í ljós að DSP-þörungaeitur er enn yfir viðmiðunarmörkum í kræklingi þó magnið hafi lækkað nokkuð frá síðustu mælingum.

Vöktun á eiturþörungum sýnir að Dynophysis-þörungurinn sem veldur DSP-eitrun er einnig yfir viðmiðunarmörkum og því má búast við DSP-eitur verði viðvarandi í kræklingi í Hvalfirði í sumar. 

Eitrið getur valdið kviðverkjum, niðurgangi, ógleði og uppköstum. Einkenni koma fram fljótlega eftir neyslu og líða hjá á nokkrum dögum. 

Vakin er athygli á því að neytendur hafa ekki ástæðu til að varast krækling (bláskel) sem ræktaður er hérlendis og er á markaði í verslunum og veitingahúsum þar eð innlend framleiðsla á kræklingi er undir eftirliti Matvælastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×