Körfubolti

Tryggvi og félagar úr leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tryggvi Snær Hlinason.
Tryggvi Snær Hlinason. vísir/getty
Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Valencia eru úr leik í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta eftir tap gegn Herbalife Gran Canaria í oddaleik í 8-liða úrslitum.

Liðin höfðu skipt með sér sigrunum til þessa í einvíginu og mættust þriðja sinni á heimavelli Valencia í kvöld.

Leikurinn var mjög jafn frá upphafi til enda en gestirnir voru með eins stigs forystu í hálfleik 37-38. Eftir hörkuspennandi lokasprett var Valencia með tveggja stiga forystu, 81-79, þegar aðeins sekúndubrot lifðu af leiknum en gestirnir náðu að jafna og knýja fram framlengingu. Þar fóru þeir með 89-92 sigur.

Tryggvi Snær fékk að spila 2:18 mínútur í leiknum sem komu í þriðja leikhluta. Á þeim tíma nældi hann sér í eina villu en náði ekki að skila öðru framlagi til leiksins.

Gran Canaria mætir Real Madrid í undanúrslitarimmunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×