Viðskipti innlent

Fjárfesta í Meniga fyrir 380 milljónir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, segist hæstánægður með samstarfið.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, segist hæstánægður með samstarfið. aðsend
Ítalski bankinn Unicredit hefur fjárfest í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga fyrir 3.1 milljónir evra, eða sem nemur 382 milljónum króna. Til viðbótar við fjárfestinguna hefur bankinn hafið innleiðingu á snjallsíma- og netbankalausnum Meniga. Fram kemur í tilkynningu frá íslenska fyrirtækinu að um sé að ræða „stærsta samning sinnar tegundar sem gerður hefur verið í Evrópu.“

Samstarfið var kynnt á Money 20/20, stærstu fjártækni-ráðstefnu Evrópu, í Amsterdam í dag. Í tilkynningunni segir að samstarfið muni meðal annars fela í sér endurbætur á snjallsíma- og netbankalausn bankans.

Haft er eftir Georgi Lúðvíkssyni, forstjóra og eins stofnenda Meninga, að hans fólk sé spennt fyrir að taka þátt í „stafrænu umbreytingarferli UniCredit,“ og að geta innleitt nýjar lausnir fyrir viðskiptavini þessa stóra banka.

Gianni Franco Papa, framkvæmdastjóri UniCredit.aðsend
„Fjárfesting UniCredit mun gera okkur kleift að einblína á áframhaldandi vöxt og þróun fjármálalausna í fremstu röð. UniCredit er einn stærsti banki Evrópu með starfsemi í 17 löndum og það er mikill heiður fyrir Meniga að banki af þessari stærðargráðu hafi ákveðið að fjárfesta í Meniga og velja okkur sem lykilsamstarfsaðila bankans í nýsköpun og fjártækni.“ segir Georg.

Í sömu tilkynningu er jafnframt haft eftir Gianni Franco Papa, framkvæmdastjóra UniCredit, að samstarfið sé mikilvægur liður í vegferð bankans. UniCredit hafi lagt mikla áherslu á að bjóða viðskiptavinum sínum upp á „persónulega upplifun“ og lausnir Meniga falli vel að þeirri áherslu.

Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfs­menn í dag um 100. Hug­búnaður Meniga hef­ur verið inn­leidd­ur hjá yfir 70 fjár­mála­stofn­un­um og er hann aðgengi­leg­ur yfir 50 millj­ón manns í 23 lönd­um. Meðal við­skipta­vina Meniga eru marg­ir stærstu banka heims, þeirra á meðal Swedbank, Sant­and­er, Comm­erz­bank, ING Direct og In­tesa San­pa­olo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×