Innlent

Sóttvarnalæknir frétti af mislingasmiti í vélum Icelandair í fjölmiðlum

Birgir Olgeirsson skrifar
Sóttvarnalæknir segir fulltrúa Icelandair einnig hafa komið af fjöllum og engin tilkynning hafi borist frá Kanada.
Sóttvarnalæknir segir fulltrúa Icelandair einnig hafa komið af fjöllum og engin tilkynning hafi borist frá Kanada. Vísir/Getty
Sóttvarnalæknir frétti fyrst af mislingatilfellinu í áætlunarferðum Icelandair í gegnum fjölmiðla. Greint var frá því í morgun að heilbrigðisyfirvöld í Toronto í Kanada rannsaki nú mislingatilfelli sem barst til borgarinnar með farþega í vél Icelandair í síðustu viku.

Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir en hann segir sóttvarnasvið embættis landlæknis leita nú að staðfestingu á að þessar fregnir frá Kanada séu réttar.

„Við viljum ekki setja af stað neina vinnu nema þetta sé örugglega rétt. Við erum í samstarfi við Icelandair og erum að hefja þá vinnu,“ segir Þórólfur.

Hann segist hafa heyrt í fulltrúum Icelandair í morgun en þeir fengu enga tilkynningu frá Kanada um málið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.VÍSIR/STEFÁN
„Og komu þess vegna alveg eins af fjöllum eins og allir aðrir,“ segir Þórólfur.

Hann segir embættið ekki hafa borist neinar upplýsingar um mislingasmit hér á landi eftir þetta atvik en bendir á að læknar séu ekki vanir að sjá mislinga í sjúklingum og þess vegna ekki það fyrsta sem þeim dettur í hug þegar þeir reyna að greina hvaða amar að fólki.

Þórólfur segir að þess vegna hefði verið mikilvægt að fá tilkynningu frá Kanada um þetta mál þannig að hægt væri að vara þá farþega við sem voru í áætlunarferðum Icelandair. Þannig gætu þeir leitað til læknis með þær upplýsingar ef þeir veikjast.

„Þá greinist þetta mikið fyrr og hægt að bregðast við fyrr,“ segir Þórólfur sem bendir á að Kanadamönnum beri skylda til að tilkynna svona mál.

Sjúkdómurinn er bráðsmitandi og er farþegum sem deildu flugvél með manninum ráðlagt að ganga úr skugga um að þeir hafi ekki smitast af mislingunum.

Maðurinn hafði ferðast frá Kænugarði í Úkraínu með viðkomu á Íslandi. Hann millilenti og skipti um flugvél á tveimur stöðum og eru farþegar í eftirtöldum flugferðum taldir kunna að vera í hættu.

  • Flug Ukraine International Airlines númer PS423 frá Kænugarði til Berlín.
  • Flug Icelandair númer FI529 frá Berlín til Keflavíkur.
  • Flug Icelandair númer FI603 frá Keflavík til Toronto.
Var greint frá því í morgun að hver sem komist hefur í tæri við mislinga, hefur ekki fengið tvo skammta af mislingabóluefni eða aldrei áður smitast af mislingum sé í áhættuhópi.

Mislingar eru sérstaklega hættulegir börnum, þunguðum konum og fólki með viðkvæmt ónæmiskerfi.

Farþegum á fyrrnefndum leiðum er ráðlagt að fylgjast vel með einkennum sjúkdómsins; sem sögð eru vera hár hiti, hóstaköst, nefrennsli, særindi í augum, viðkvæmni fyrir birtu og rauð útbrot sem geti varað í allt að viku.

Á vef landlæknis segir að einkenni mislinga geta verið lík ýmsum öðrum sjúkdómum og því sé rétt er að hafa samband við lækni til að fá staðfestingu á að um mislinga sé að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×