Erlent

Eyðileggja skjöl um Gúlagið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Samkvæmt Medusa munu þessar aðgerðir hafa hrikalegar afleiðingar fyrir störf sagnfræðinga sem rannsaka hvað fram fór í Gúlaginu, umfang þess og afdrif fanga.
Samkvæmt Medusa munu þessar aðgerðir hafa hrikalegar afleiðingar fyrir störf sagnfræðinga sem rannsaka hvað fram fór í Gúlaginu, umfang þess og afdrif fanga. Vísir/Getty
Yfirvöld í Rússlandi fyrirskipuðu árið 2014 að eyðileggja skyldi skjöl sem tengdust sovéska Gúlaginu. Þetta kemur fram í bréfi sem  Róman Rómanov, framkvæmdastjóri Gúlagsafnsins í Moskvu, sendi Vladímír Pútín forseta og Míkhaíl Fedotov, formanni mannréttindaráðs Rússlands.

Lettnesk-rússneski miðillinn Medusa fjallaði um málið í gær og sagði að Sovétríkin hefðu geymt skjöl um skráningu fanga sem létu lífið í Gúlaginu en skjölunum hafi verið fargað ef fangar lifðu vistina af. Þeir fangar sem lifðu vistina af fengu svo sérstakt skírteini um vistina og meðal annars þau skírteini eru rússnesk yfirvöld nú sögð eyðileggja.

Samkvæmt Medusa munu þessar aðgerðir hafa hrikalegar afleiðingar fyrir störf sagnfræðinga sem rannsaka hvað fram fór í Gúlaginu, umfang þess og afdrif fanga. Þá verði erfiðara fyrir Rússa að komast að því hvað varð um ættingja sína sem sendir voru í Gúlagið.

Alexander Makejev, sem sér um skjalsafn Gúlagsafnsins, sagði við Interfax í gær að hann hefði uppgötvað hina leynilegu skipun og komst einnig að því að nú þegar hefði slíkum skjölum verið eytt í Magadan-héraði, þar sem einar stærstu fangabúðir Sovétríkjanna voru.

Fedotov sagði í viðtali við Komm­ersant að hann myndi rannsaka málið sérstaklega. „Þetta er grundvallaratriði. Við erum að tala um sögufölsun. Þegar skjölin eru til staðar er nær ómögulegt að falsa þau en þegar engin skjöl eru til staðar er hægt að segja hvað sem maður vill,“ sagði Fedotov.

Vladímír Sjírínovskí, formaður þjóðernishyggjuflokksins Frjálslyndra demókrata, gagnrýndi aðgerðirnar í gær og sagði að upplýsingar sem þessar ætti að opinbera, þeim ætti ekki að eyða. Rússar ættu að vita sannleikann um fortíð ríkisins.  – þea




Fleiri fréttir

Sjá meira


×