Erlent

Fyrsta Bond-stúlkan látin

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Gayson er eina leikkonan sem hefur leikið Bond-stúlku í tveimur myndum um njósnarann frækna
Gayson er eina leikkonan sem hefur leikið Bond-stúlku í tveimur myndum um njósnarann frækna
Leikkonan Eunice Gayson, sem var fyrst til að leika ástkonu njósnarans James Bond, er látin. Hún lék persónu Sylviu Trench í myndinni Dr. No sem kom út árið 1962 og var fyrsta myndin sem byggði á sögum Ians Fleming um Bond. Hún lék sömu persónu í næstu mynd, From Russia with Love.

Upphaflega átti persóna hennar að vera fastur liður í Bond myndunum en leikstjóra þriðju myndarinnar, Goldfinger, fannst það ekki góð hugmynd.

Ástkonur Bonds í gegn um tíðina skipta nú mörgum tugum en Gayson er minnst sem fyrstu Bond-stúlkunnar. Upphaflega stóð til að hún léki einkaritara Bonds, frú Moneypenny, en Lois Maxwell hreppti það hlutverk í staðinn.

Þess má geta að þó að Gayson hafi tvisvar leikið Bond-stúlku heyrðist rödd hennar aldrei í myndunum. Á þessum tíma var algengt að aðrar og reyndari leikkonur væru fengnar til að lesa texta fyrir þær yngri. Rödd Sylviu Trench kom því frá Nikki van der Zyl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×