Skoðun

Íslenskt lambakjöt verndað afurðaheiti í Evrópu

Svavar Halldórsson skrifar
Þann 1. maí tók gildi samningur á milli Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæma verndun afurðaheita. Af því leiðir að íslenskar vörur sem njóta verndar samkvæmt lögum nr. 130/2014 um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, eru nú einnig verndaðar á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Noregur hefur gert sambærilegan samning. Á sama hátt eru evrópskar vörur sem eru undir sambærilegu regluverki Evrópusambandsins verndaðar hér og í Noregi.

Íslenskt lambakjöt (e. Icelandic Lamb) er fyrsta og eina íslenska afurðaheitið sem er skráð og nýtur þar með þessarar sérstöku verndar samkvæmt íslensku lögunum bæði hér og í Evrópu. Ásamt notkun á heitinu fylgir heimild til að nota íslenska auðkennismerkið í markaðssetningu. Unnið er að skráningu á afurðaheitinu í kerfi Evrópusambandsins sem á endanum leiðir til þess að nota má sambærilegt evrópskt auðkennismerki á íslenskt lambakjöt.

Tilgangur kerfisins er að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Vottanirnar geta vísað til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu. Íslensku lögin taka mið af regluverki Evrópusambandsins en rúmlega 1.400 afurðir eru þegar skráðar í evrópska kerfinu og tæplega 200 aðrar eru í umsóknarferli. Þar má nefna nokkrar af frægustu matvörum Evrópu eins og Parmigiano Reggiano og Prosciutto Di Parma.

Tilgangur skráningarinnar frá sjónarhóli bænda og framleiðenda er sá að auka verðmætasköpun, en rannsóknir sýna að neytendur eru tilbúnir að greiða talsvert hærra verð fyrir vottuðu afurðirnar en aðrar sambærilegar vörur. Tvær norskar afurðir eru nú þegar komnar með evrópska merkið. Samkvæmt upplýsingum frá Norðmönnum fæst nú mun hærra verð fyrir þær á mörkuðum í öðrum Evrópusambandsríkjum. Undirritaður óskar íslenskum bændum og neytendum til hamingju með að íslenskt lambakjöt sé nú verndað afurðaheiti í Evrópu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar Icelandic lamb




Skoðun

Sjá meira


×