Danska þingið hefur samþykkt að banna klæðnað sem hylur andlit fólks á almannafæri en lögin beinast fyrst og fremst að múslimakonum sem klæðast niqab eða búrku. Lögin voru samþykkt með 75 atkvæðum gegn 30 en 74 þingmenn voru ekki viðstaddir atkvæðagreiðsluna.
Frá og með fyrsta ágúst næstkomandi liggur fjársekt við því að klæðast búrkum eða niqab á almannafæri í Danmörku; eitt þúsund danskar krónur. Þeir sem brjóta lögin fjórum sinnum eða oftar þurfa að greiða tíu þúsund danskar krónur í sekt.
Gauri van Gulik, forstjóri Amnesty International í Evrópu, segir að lögin mismuni á grundvelli trúarbragða og séu brot á tjáningarfrelsi. Það sé sjálfsagt að takmarka grímuklæðnað á öryggisgrundvelli en það sé ekki tilgangur þessara laga.
Van Gulik segir að ef danskir þingmenn hafi viljað standa vörð um kvenréttindi hafi þeim mistekist það hrapalega með þessari löggjöf. Nýju lögin glæpavæði klæðnað kvenna og brjóti gegn sjálfsákvörðunarrétti þeirra.

