Innlent

Lögheimili bæjarfulltrúa Hafnarfjarðar úrskurðað í Kópavogi

Birgir Olgeirsson skrifar
Einar  Birkir Einarsson.
Einar Birkir Einarsson. Vísir
Bæjarfulltrúinn Einar Birkir Einarsson sat ekki fund bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag eftir að Þjóðskrá Íslands úrskurðaði lögheimili hans í Kópavogi en ekki í Hafnarfirði.

Einar Birkir var kjörin í bæjarstjórn árið 2014 fyrir hönd Bjartrar framtíðar. Í apríl síðastliðnum sagði hann sig úr Bjartri framtíð en sat áfram í bæjarstjórn sem óháður bæjarfulltrúi. Gagnrýnt hafði verið að Einar hefði aðsetur í Kópavogi en skráð lögheimili í Hafnarfirði.

Svo fór að Þjóðskrá Íslands tók mál hans fyrir og úrskurðaði lögheimili hans í Kópavogi en ekki Hafnarfirði. Eftir þann úrskurð var ljóst að Einar er ekki lengur kjörgengur í Hafnarfirði.

Greint er frá málinu á vef Fjarðarfrétta en þar segir að Einar hafi sent forseta bæjarstjórnarinnar bréf þar sem hann upplýsti um niðurstöðu Þjóðskrár og að hann muni ekki sitja síðasta bæjarstjórnarfund Hafnarfjarðar á þessu kjörtímabili.

Einar Birkir hafði tekið 14. sæti á Bæjarlistanum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði en á þeim lista eru nokkrir sem sögðu sig úr Bjartri framtíð ásamt öðrum sem voru tilbúnir að vinna með þeim.


Tengdar fréttir

Ágreiningur um nýtt knatthús í Hafnarfirði

Pétur Óskarsson, varabæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði, gagnrýnir harðlega að honum hafi ásamt Borghildi Sturludóttur, sem einnig er varabæjarfulltrúi BF, verið vikið úr nefndum og ráðum í bæjarstjórninni vegna ágreinings við meirihlutann eða Sjálfstæðisflokk og tvo bæjarfulltrúa um byggingu á knatthúsi í bænum.

Ráku menn BF úr öllum ráðum

Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti í gær á hitafundi að víkja Borghildi Sturludóttur og Pétri Óskarssyni úr nefndum og ráðum sem þau hafa setið í fyrir hönd Bjartrar framtíðar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×