Innlent

Sérsveitin okkar gætir líka Netanyahu-bræðra

Aðalheiður Ámundadóttir og Sigurður Mikael Jónsson skrifa
Avner og Yair Netanyahu sjást hér með föður sínum Benjamin í Jerúsalem árið 2013. Bræðranna er vel gætt.
Avner og Yair Netanyahu sjást hér með föður sínum Benjamin í Jerúsalem árið 2013. Bræðranna er vel gætt. Vísir/epa
Sérsveit ríkislögreglustjóra sinnir gæslu á sonum Benj­amins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, meðan þeir eru staddir hér á landi í einkaerindum. Ástæðan er að ríkislögreglustjóri heimilaði sonunum að taka með sér vopnaða lífverði til landsins, en þá kveða reglur á um að þeir starfi undir stjórn og eftirliti íslenskra lögregluyfirvalda. Ríkislögreglustjóri ber alfarið kostnað af vinnu sérsveitarmanna við þessa gæslu.

Greint var frá heimsókn Avner og Yair Netanyahu í vikunni en þeir eru hvorki hér í opinberum erindagjörðum né á vegum ísraelska ríkisins heldur í einkaferð.

Synirnir njóta verndar lífvarðasveitar þegar þeir ferðast erlendis en það fyrirkomulag hefur verið harðlega gagnrýnt í heimalandinu. Öryggisgæslan er öll fremur umdeild enda hafa erlendir fjölmiðlar greint frá því að hún sé þvert á ráðleggingar fyrrverandi yfirmanns opinberrar öryggisþjónustu Ísraels. Þessir vopnuðu lífverðir komu með bræðrunum hingað til lands og til þess þurfti sérstakt leyfi.

Sjá einnig: Synir Netanjahú með vopnaða lífverði á Íslandi

Ríkislögreglustjóri getur heimilað erlendum lögreglumönnum og öryggisvörðum að bera vopn við störf sín hér á landi með vísan í 45. grein reglna um um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna. 



Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Fréttablaðið/GVA
Forsenda þess er þó að þeir starfi undir stjórn lögreglunnar og fylgi reglum um vopnaburð og notkun vopna að öllu leyti. Ríkislögreglustjóri gefur út sérstök skírteini fyrir þessa lífverði.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri að Netanyahu-bræður og lífverðir þeirra njóti gæslu sérsveitar ríkislögreglustjóra. Það sem meira er, íslenska ríkið borgi brúsann.

„Ríkislögreglustjóri ber alfarið kostnað af vinnu sérsveitar, enginn reikningur er sendur Ísraelum vegna vinnu sérsveitarmanna. Upplýsingar um fyrirkomulag öryggisgæslu eru ekki veittar.“

Haraldur segir í samtali við Fréttablaðið að ekki sé gerður greinar­munur á því hvort um opinbera eða einkaheimasókn sé að ræða þegar einstaklingar komi hingað með vopnaða öryggisverði.

„Mér skilst að þeir séu hér í einkaerindum með vopnaða lífverði með í för og þá fara íslenskir sérsveitarmenn með stjórn þeirrar heimsóknar, þetta er skýrt í reglunum.“

Aðspurður segir Haraldur svona nokkuð algengt.

„Já, í gegnum tíðina þegar litið er til baka er þetta algengt. Þessi háttur, sem hafður er á varðandi þessa tilteknu heimsókn, er ekki nýmæli.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×