Innlent

Ætla að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar

Samúel Karl Ólason og Þorbjörn Þórðarson skrifa
Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík, segir kosningabaráttuna hafa verið skemmtilega. Þau hafi fjallað um málefni sem hafi hingað til ekki fengið mikla umfjöllun og Sósíalistaflokkurinn sé að færa valdið til fólksins.

„Núna ætlum við bara að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar,“ segir Sanna.

Hún segir að flokknum hafi gengið vel að koma málstað sínum á framfæri, þrátt fyrir fjölda flokka í framboði. Samfélagsmiðlar hafi virkað vel og fólk hafi tengt við sögur flokksins.

Varðandi atvik sem vakti mikla athygli í gær þar sem Sanna var spurð hvort þeir sem ætli sér að kjósa Sósíalistaflokkinn geti treyst framkvæmdastjóra flokksins, Gunnari Smára Egilssyni, sem Einar Þorsteinsson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, sagði hafa oftar en einu sinni skilið launafólk eftir kauplaust, segir Sanna að hún hafi verið mætt til þess að ræða um framboðið og stefnumál.

„Ég var komin til að ræða það. Ekki einhvern mann sem er ekki einu sinni á lista hjá okkur. Ég held að ég hafi komið markmiðum okkar ágætlega til skila.“

Sjá einnig: Framkvæmdastjóri Sósíalista kallar fréttamann RÚV drullusokk eftir kappræður

Spurð út í helstu baráttumál sín, komist hún í borgarstjórn segir Sanna: „Valdið til fólksins, húsnæði fyrir alla, mannsæmandi kjör fyrir alla.“

Hún segist bjartsýn fyrir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×