Innlent

Bjartsýn á að ná inn tveimur og jafnvel þremur mönnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Líf Magneudóttir með börnum sínum á kjörstað í morgun.
Líf Magneudóttir með börnum sínum á kjörstað í morgun. vísir/sigurjón
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, er bjartsýn á að flokkurinn nái tveimur og jafnvel þremur mönnum inn í borgarstjórn. Samkvæmt könnun Gallup, sem var seinasta könnunin sem kynnt var í gær, eru Vinstri græn með 6,2 prósent fylgi og einn mann inni.

Líf tók daginn snemma í morgun, líkt og aðrir oddvitar framboðanna í Reykjavík, og kaus í Hagaskóla. Í samtali við fréttastofu kvaðst hún brött og full bjartsýni fyrir kvöldið.

„Ég er brött af því að við höfum verið að tala við fólk í kosningabaráttunni og það tekur okkur vel og er jákvætt og fylgjandi okkar stefnu þannig að ég er full bjartsýni um að við náum tveimur jafnvel þremur inn á lokasprettinum,“ sagði Líf.

Aðspurð hvernig hann hafi fundist kosningabaráttan hafa verið segir Líf að henni hafi fundist ákveðin deyfð yfir henni.

„Ég sakna þess að fara á dýptina þegar við erum að ræða málin og gefa okkur tíma til þess. En annars þá erum við búin að vera með mjög góða kosningabaráttu. Við höfum ekki verið að ata aðra út. Við höfum bara haldið okkar málefnum til streitu og talað um þau og það finnst mér skipta máli. Þannig að ég er sátt.“

Heldurðu að verðrið muni hafa áhrif á kjörsókn í dag?

„Já, ég held það en við Vinstri græn erum sterk og látum ekki veður trufla okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×