Innlent

Aðstoðardepill á rúðu túlkaður sem kosningaáróður Samfylkingarinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rauður hringur er hér dreginn um samskonar depil á glerhurð í ráðhúsi Reykjavíkur. Depillinn sem límt var fyrir í dag var þó í Kórnum í Kópavogi.
Rauður hringur er hér dreginn um samskonar depil á glerhurð í ráðhúsi Reykjavíkur. Depillinn sem límt var fyrir í dag var þó í Kórnum í Kópavogi. Vísir/Valli
Límt hefur verið yfir rauðan depil á hurð að Kórnum í Kópavogi, sem er kjörstaður þar í bæ, eftir að kvörtun barst vegna depilsins í dag. Kvörtunin barst undir því yfirskyni að um væri að ræða kosningaáróður frá Samfylkingunni en depillinn er þó á hurðinni til að varna því að vegfarendur gangi á hana.

Mbl greindi fyrst frá málinu en Snorri Tómasson, formaður kjörstjórnar í Kópavogi, sagði í samtali við Vísi nú á fjórða tímanum í dag að depillinn uppi í Kór sé hugsaður sem sérstakt merki, einkum fyrir sjónskerta, svo ekki sé gengið á hurðina, sem er að mestu úr gleri.

Umræddur depill tengist því Samfylkingunni ekki neitt en merki flokksins er samskonar rauður depill.

„Þetta var undir því yfirskyni að þetta væri áróður á kjörstað,“ sagði Snorri um kvörtunina. Því hafi verið límt yfir depilinn en áróður er ekki leyfður á kjörstað.

Í kvöldfréttum RÚV í gær var greint frá því að rauðir deplar á glerhurðum í ráðhúsi Reykjavíkur yrðu fjarlægðir eða huldir vegna líkinda með merki Samfylkingarinnar.

Marinó Örn Ólafsson, sem var í framboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi í síðustu alþingiskosningum, vakti athygli á aðgerðum kjörstjórnar í dag og sagði þær skeytingarleysi í garð sjónskertra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×