Innlent

„Verður bara spennandi eins og við vissum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Formenn flokkanna í myndveri Stöðvar 2 í kvöld.
Formenn flokkanna í myndveri Stöðvar 2 í kvöld. vísir/vilhelm
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að úrslit sveitarstjórnarkosninganna verði spennandi bæði á Seltjarnarnesi og í Vestmannaeyjum miðað við fyrstu tölur.

Þetta kom fram í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 þar sem formenn flokkanna bregaðst við fyrstu tölum í beinni útsendingu.

Sjálfstæðisflokkurinn er með fjóra fulltrúa í Eyjum miðað við fyrstu tölur og missir einn, sjálfan bæjarstjórann Elliða Vignisson, en heldur þó meirihluta sínum þar sem sjö fulltrúar sitja í bæjarstjórn.

Þá er flokkurinn með fjóra fulltrúa á Seltjarnarnesi og heldur sínu miðað við fyrstu tölur.

„Það er greinilegt að þetta verður mjög spennand bæði á Seltjarnarnesi og í Vestmannaeyjum þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með hreinan meirihluta og heldur honum samkvæmt þessum tölum en er þó undir 50 prósentum sem hlýtur að segja okkur að þetta stendur tæpt. Ég tek líka eftir því að við erum að sjá í sumum sveitarfélögunum kannski allt að sex flokka fá þetta á bilinu fjögur, fimm upp í níu prósent. Það er að hafa mjög mikil áhrif sums staðar þannig að þetta verður bara spennandi eins og við vissum,“ sagði Bjarni fyrr í kvöld.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var ánægður með árangur flokks síns miðað við fyrstu tölur. Flokkurinn er meðal annars með fulltrúa í Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ nú.

„Ég er náttúrulega himinlifandi að það sjá það að það sé raunhæfur möguleiki að við fáum inn menn á stöðum eins og í Reykjanesbæ og Hafnarfirði. Það er ekki auðsótt mál að ná inn manni í Hafnarfirði,“ sagði Sigmundur Davíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×