Skoðun

Endurreisum verkamannabústaðakerfið

Líf Magneudóttir skrifar
Ástandið á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík hefur sýnt svart á hvítu að markaðslögmálin ráða ekki við að leysa húsnæðisvandann. Allt of mikið er byggt af stórum, dýrum íbúðum sem tekjulágt fólk ræður ekki við að kaupa og henta ekki barnafjölskyldum.

Svipaða sögu er að segja af leigumarkaðinum. Framkoma stórra fyrirferðarmikilla leigufélaga er svívirðileg. Leigjendur standa frammi fyrir tuga prósenta hækkun á leigu eða að lenda ella á götunni. Þetta er ekki náttúrulögmál heldur afleiðing þess að húsnæðismarkaðurinn þjónar ekki fólki, heldur fjármagni: Það er meiri arður af byggingu dýrra, stórra eigna og fjárfestar sem leggja fé í fasteignafélög krefjast hámarksávöxtunar. Græðgi er rót vandans.

Borgin á að vera gerandi í húsnæðismálum og vinna náið með verkalýðshreyfingunni og öllum sem vilja byggja upp húsnæðiskerfi í anda gömlu verkamannabústaðanna. Það þarf að skapa sem fjölbreyttastan húsnæðismarkað þar sem fleiri form búsetu bjóðast.

Verkalýðshreyfingin og stjórnvöld hafa áður tekið höndum saman um lausn húsnæðisvanda Reykvíkinga með verkamannabústöðum. Það gerðist á millistríðs­árunum þegar húsnæðisskortur í Reykjavík var einn sá versti í allri Evrópu. Á sjöunda áratugnum var Breiðholtið svo byggt og braggahverfunum útrýmt.

Í dag er þörf á sams konar átaki.

Samhent átak með verkalýðshreyfingunni og öðrum sem reka óhagnaðardrifin leigufélög er nauðsynlegt til að leysa húsnæðisvandann til skamms tíma. Slík samvinna er þó enn mikilvægari til langs tíma.

Langtímalausn húsnæðisvandans krefst þess að barnafjölskyldur og tekjulágt fólk sé ekki ofurselt kuldalegum markaðslögmálum; að hér sé starfandi kerfi sem býður fólki upp á fleiri valkosti.

Á næsta kjörtímabili ætla Vinstri græn að taka höndum saman með öllum þeim sem vilja byggja hér húsnæðiskerfi sem þjónar fólki, ekki fjármagni. Því það er best fyrir samfélagið.






Skoðun

Sjá meira


×