Innlent

Eyþór Arnalds skilar mjólkurpeningunum

Jakob Bjarnar skrifar
Frambjóðandinn hefur brugðist við gagnrýni með því endurgreiða MS styrkinn en stjórnarmaður segir styrkinn hafa verið greiddan fyrir misskilning.
Frambjóðandinn hefur brugðist við gagnrýni með því endurgreiða MS styrkinn en stjórnarmaður segir styrkinn hafa verið greiddan fyrir misskilning. visir/ernir
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, hefur endurgreitt MS styrk til framboðs hans sem nemur 200 þúsund krónum. Þetta kemur fram á mbl.is en helsti eigandi vefmiðilsins er téður Eyþór.

Vísir greindi frá því fyrir rétt rúmri viku að framboð Eyþórs í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins kostaði um fimm milljónir króna. Þar kom jafnframt fram að meðal þeirra sem létu fé af hendi rakna til framboðsins voru annars vegar MS og einnig Kaupfélag Skagfirðinga, um sem nemur sitthvorum 200 þúsund krónunum.

Þetta atriði vakti verulega gremju meðal kúabænda eins og Vísir greindi frá í morgun. „Algjörlega ólíðandi!“ segir einn kúabóndi og upplýsti Egill Sigurðsson stjórnarmaður í Auðhumlu, sem á 90 prósenta hlut í MS, í framhaldinu, að þessi styrkveiting hafi ekki verið samþykkt í stjórn og slíkir styrkir hafa ekki tíðkast hjá MS um langt árabil.

„Hér hafa orðið einhver mistök eða misskilningur sem við förum yfir á næsta stjórnarfundi.“ Egill segir jafnframt að allir verkferlar verði skoðaðir til að fyrirbyggja slík mistök í framtíðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×