Athöfn sem markar opnun sendiráðsins hófst í Jerúsalem klukkan 13 að íslenskum tíma. Um 800 gestir voru við opnunina, þar á meðal dóttir Donald Trump, Bandaríkjaforseta, Ivanka Trump, og eiginmaður hennar Jared Kushner.
Það var í desmber í fyrra sem Trump tilkynnti um ákvörðun sína að opna sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael. Ákvörðunin er afar umdeild þar sem bæði Palestínumenn og Ísraelar gera tilkall borgarinnar; þeir fyrrnefndu líta á austurhluta Jerúsalem sem höfuðborg sína og hinir síðarnefndu telja borgina einfaldlega sína höfuðborg.

Sagði Ísrael fullvalda ríki sem megi ákveða hvar það hefur sína höfuðborg
Þegar Palestínumenn og Ísraelar sömdu um frið árið 1993 var tekið fram að framtíðarstaða Jerúsalem yrði viðfangsefni viðræðna í framtíðinni. Slíkar viðræður hafa ekki farið fram og þykir Trump því vera að slá vopnin úr höndum Palestínumanna með ákvörðuninni um sendiráð í borginni.David Friedman, sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael, bauð gesti á opnuninni velkomna og hrósaði Trump fyrir hugrekki og skýra sýn varðandi það að opna sendiráð í Jerúsalem. Þá þakkaði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, Trump fyrir og sagði að hann hefði skráð nafn sitt á spjöld sögunnar.
Trump var sjálfur ekki viðstaddur opnun sendiráðsins en sendi myndband með skilaboðum sem spilað var á staðnum. Sagði hann að loksins væri komið að þessu og minntist á það að Ísrael væri fullvalda ríki sem mætti sjálft ákveða hvar höfuðborg þess væri. Þá benti hann á að ríkisstjórn Ísrael er með aðsetur í Jerúsalem sem og hæstiréttur landsins.

Áhyggjufullur vegna þess hve margir hafa fallið
Ísraelsher segir að um 35 þúsund Palestínumenn taki þátt í „ofbeldisfullum mótmælum“ á Gaza við öryggisgirðinguna sem markar landamæri svæðisins og Ísrael. Segir herinn að tilgangur mótmælanna sé rjúfa gat í girðinguna og ráðast inn í ísraelsk samfélög hinu megin við hana.Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa fordæmt aðgerðir Ísraelshers á Gaza í dag og segja að verið sé að brjóta alþjóðalög og mannréttindi á svæðinu.
Þá sagði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, við blaðamenn í Vín í Austurríki að hann væri áhyggjufullur vegna þess hve margir hafa verið drepnir í mótmælunum.

„Einfaldlega að viðurkenna raunveruleikann“
Eftir að opnunarathöfn sendiráðsins var lokið sendi Hvíta húsið frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að viðurkenning Bandaríkjaforseta á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels þýddi ekki að viðræður um framtíðarstöðu borgarinnar væru komnar á endastöð.Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að með ákvörðuninni standi Trump við loforð sem hann gaf og að hann sé að „einfaldlega að viðurkenna raunveruleikann.“
Byggt á fréttum og textalýsingumGuardian og BBC.