Innlent

Vísindamenn líkja eftir loftslagsbreytingum á hálendi Íslands

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Plastbúr á vegum Ingibjargar Svölu Jónsdóttur sem starfað hefur undir merkjum International Tundra Experiment í yfir tuttugu ár.
Plastbúr á vegum Ingibjargar Svölu Jónsdóttur sem starfað hefur undir merkjum International Tundra Experiment í yfir tuttugu ár. Ingibjörg Svala
Ólafur S. Andrésson, prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands, hyggst rannsaka áhrif fyrirsjáanlegra loftslagsbreytinga með því að líkja eftir þeim með sérhönnuðum búrum sunnan Löðmundarvatns á Landmannaafrétti.

Ólafur kveðst í bréfi sem tekið var fyrir á fundi Hálendisnefndar Rangárþings ytra vinna að rannsóknaverkefni um hlut hélumosavistar og annarra svæða sem einkennast af lífskurn á hálendinu. Útvíkka eigi verkefnið með athugun á áhrifum hlýnunar á hélumosavistina. Það sé gert með glærum plastbúrum sem séu opin að ofan.

„Reynslan af slíkum búrum í langtímarannsóknum á Þingvöllum, Auðkúluheiði og víðar á norðurslóðum er góð, og sýnt að með þeim er hægt að hækka jafnaðarhitastig um nærri tvær gráður, og líkja þannig eftir fyrirsjáanlegum loftslagsbreytingum,“ útskýrir Ólafur í bréfinu. Meta eigi líkleg áhrif hlýnunar á vistgerð sem sé mjög útbreidd á hálendum svæðum hérlendis og víðar á norðurslóðum.

Ingibjörg Svala Jónsdóttir prófessor, sem starfar með Ólafi og unnið hefur að slíkum verkefnum á alþjóðlegum grundvelli í meira en tuttugu ár, segir reynsluna af aðferðinni góða. Rannsóknin sunnan Löðmundarvatns beinist að mjög mikilvægu vistkerfi á Íslandi. Um sé að ræða skán sem bindi yfirborð jarðvegsins og mynduð sé af ótal mörgum lífverum; fyrst og fremst örverum. „Þetta er mjög mikilvægt kerfi og það er ekkert vitað um hvernig það bregst við hlýnun,“ segir hún.

Svæðið sunnan Löðmundarvatns er sérstaklega hentugt í þessu skyni og hálendisnefndin veitti leyfi fyrir rannsókninni.

Setja á upp sjö eða átta plastbúr sem eru um einn fermetri hvert og um 40 sentimetra há ásamt mælitæki í hverju búri. Rannsóknin á að standa í að minnsta kosti þrjú ár og í allt að tíu ár.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×