Gestir geta svo keypt það sem þeim líst á á heimasíðu staðarins, hvort sem það er húsgagn eða fatnaður. „Við verðum með okkar eigin Miami fata- og húsgagnalínu og gestir geta keypt fötin og stólana og borðin og það sem þeim líst á,“ segir Gunnsteinn. Hann heldur að þetta sé í fyrsta sinn í heiminum sem bar er með sína eigin húsgagna- og fatalínu.
„Niðri verða borðtennisborð, við erum að láta gera sér spaða og kúlur og fólk getur keypt sér borðtennisgræjur á heimasíðunni.
Það sem við erum að gera hefur aldrei sést áður í heiminum, því hvert einasta húsgagn er sérhannað og sérsmíðað. Það er ekkert sem við höfum fundið sem er líkt þessum stað.“
Gunnsteinn segir að Miami verði ekki skemmtistaður enda ekkert dansgólf, enginn trúbador og enginn matur. Bara kokteilar og góða skapið. „Þarna verður 80s og 90s þema með smá áhrifum frá Miami. Bleik og blá teppi á gólfunum og þessa dagana erum við að vakta uppboð til að kaupa hönnunarverk frá þessum tíma. Stefnan er að staðurinn verði eitt stórt hönnunarlistaverk.“
Til að fanga tímann var leitað til stærstu stjörnu níunda áratugarins, Dons Johnson, sem gerði garðinn frægan í Miami Vice, til að koma í opnunarpartíið. Því miður gekk það ekki. „Við höfðum samband við umboðsmanninn hans sem sagði að hann væri alveg til í að koma en einungis ef við borguðum honum mikið fyrir. Það var aðeins of dýrt fyrir okkur. En við hættum ekkert við opnunarpartíið. Það verður alveg þó að hann komist ekki,“ segir Gunnsteinn.
