Erlent

Skrípal útskrifaður af sjúkrahúsi eftir eitrunina

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikill viðbúnaður hefur verið í Salisbury vegna eitrunarinnar.
Mikill viðbúnaður hefur verið í Salisbury vegna eitrunarinnar. Vísir/AFP
Rússneski fyrrverandi njósnarinn Sergei Skrípal var útskrifaður af sjúkrahúsí í dag, rúmum tveimur mánuðum eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitri í bænum Salisbury á Englandi. Skrípal verður áfram í meðferð vegna eitrunarinnar utan sjúkrahússins.

Skrípal og dóttir hans Júlía fundust nær meðvitundarlaus á bekk 4. mars. Í ljós kom að eitrað hafði verið fyrir þeim með taugaeitrinu novichok. Það var upphaflega þróað í Sovétríkjunum. Bresk stjórnvöld hafa kennt rússneskum stjórnvöldum um morðtilræðið en því hafa Rússar neitað harðlega.

Júlía var útskrifuð af sjúkrahúsi 9. apríl og var sögð flutt á öruggan stað. Lorna Wilkinson, yfirmaður hjúkrunar á sjúkrahúsinu í Salisbury, segir að útskrift Skrípal nú sé mikilvægt skref í bata hans sem haldi áfram utan sjúkrahússins. Meðferð feðginina hafi verið „risavaxin og fordæmalaus áskorun“, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Lögreglumaðurinn sem var fyrstur á vettvang þegar Skrípal-feðginin fundust var einnig lagður inn á sjúkrahús vegna eitrunar á sínum tíma en var síðar útskrifaður þaðan.

Skrípal starfaði fyrir rússnesku leyniþjónustuna en var dæmdur og fangelsaður fyrir gagnnjósnir í þágu Breta. Hann fékk að fara til Bretlands í fangaskiptum árið 2010.


Tengdar fréttir

Rússar hafna niðurstöðunum alfarið

Stofnunin um bann við efnavopnum staðfesti að Novichok-taugaeitri hefði verið beitt gegn Sergei og Júlíu Skrípal. Bretar segja nú deginum ljósara að rússnesk yfirvöld hafi beitt efnavopni í Salisbury. Rússar hafna niðurstöðum rannsóknar alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×