Innlent

Sveitarfélögin fái meiri pening fyrir skólana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Aðalheiður Steingrímsdóttir, fyrrverandi varaformaður KÍ.
Aðalheiður Steingrímsdóttir, fyrrverandi varaformaður KÍ.
Opinber útgjöld til leik- og grunnskóla hafa lækkað á undan­gengnum árum, segir í umsögn Kennarasambands Íslands (KÍ) um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2019–2023.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, og Aðalheiður Steingrímsdóttir, fyrrverandi varaformaður KÍ, fóru á fund fjárlaganefndar í vikunni og kynntu umsögn Kennarasambandsins.

Í umsögninni leggur Kennarasambandið fast að Alþingi og stjórnvöldum að endurskoða og stækka tekjustofna sveitarfélaga með það fyrir augum að auka fjárveitingar til leikskóla og grunnskóla í samræmi við aukin verkefni og breyttar áherslur.

„Á tímanum 2008 til 2017 lækkuðu opinber útgjöld til leikskóla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu um 9,6%, að raunvirði um 8,0% og um 14,7% á hvern mann. Á sama tíma lækkuðu opinber útgjöld til grunnskóla sem hlutfall af vergri landsframleiðslu um 9,4%, að raunvirði um 7,5% og um 14,4% á hvern mann.“

Í umsögn Kennarasambandsins er líka fjallað um framhaldsskólastigið. Þar segir að óverulegar hækkanir séu ráðgerðar á framlögum til framhaldsskólanna á fimm ára tímabili áætlunarinnar frá 2019 til 2023.

„Hins vegar má sjá á nýrri áætlun að ekki standi til að draga það fjármagn úr rekstri framhaldsskólanna sem sparast við styttingu námstíma til stúdentsprófs og er það vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×