Erlent

Vilja konurnar heim

Andri Eysteinsson skrifar
Norður-kóresk stjórnvöld vilja endurheimta konurnar sem flúðu 2016.
Norður-kóresk stjórnvöld vilja endurheimta konurnar sem flúðu 2016. Vísir/EPA
Norðurkóresk stjórnvöld krefjast þess að Suður-Kórea sendi tólf norðurkóreskar konur sem settust að í Suður-Kóreu árið 2016 til baka. Stjórnvöld segja að gjörningurinn myndi sýna fram á vilja Suður-Kóreu til að bæta tengsl ríkjanna tveggja en það er AP sem greinir frá.

Í vikunni tilkynnti Suður-Kórea að rannsókn væri hafin á ástæðum þess að konurnar hafi flúið land eftir að grunur kom upp að hluti kvennanna hefðu verið fluttar til Suður-Kóreu gegn vilja þeirra.

Krafa norðurkóreskra stjórnvalda er gerð örfáum dögum eftir að hætt var við mikilvægan fund kóreuríkjanna vegna heræfinga Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Einnig var hótað að hætta við fyrirhugaðan fund Kim Jong-Un leiðtoga Norður-Kóreu og Donald Trump bandaríkjaforseta.

Stefnubreyting virðist hafa verið í Norður-Kóreu á undanförnum vikum, stjórnvöld hafa í auknum mæli leitast eftir því að bæta tengsl sín við bæði Suður-Kóreu og Bandaríkin. Í lok apríl hitti Kim suðurkóreska forsetann Moon Jae-in þar sem rætt var meðal annars um afkjarnorkuvæðingu Kóreuskagans.

Í yfirlýsingu Norður-Kóreu voru suðurkóresk yfirvöld sökuð um að svíkja lit og forðast að taka ábyrgð. Suðurkóreska stjórnin ætti að refsa þeim sem tengjast máli kvennanna og senda þær tafarlaust aftur til fjölskyldna þeirra og með því sýna vilja til að bæta samskipti ríkjanna. Stjórnvöld Suður-Kóreu höfðu áður tekið skýrt fram að flutningur kvennanna frá Kína, þar sem þær störfuðu, til Suður-Kóreu hafi alfarið verið þeirra ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×