Erlent

Yfirlýsingin verði ekki pólitískt deilumál

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-un og Moon Jae-in stíga yfir landamæri Norður- og Suður-Kóreu.
Kim Jong-un og Moon Jae-in stíga yfir landamæri Norður- og Suður-Kóreu. vísir/afp
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, kallaði í gær eftir því að suðurkóreska þingið fullgilti yfirlýsinguna sem hann undirritaði með Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, eftir fund þeirra í landamærabænum Panmunjom á föstudaginn.

Suðurkóreski miðillinn Yonhap greindi frá og sagði að með því ákalli vildi Moon tryggja að yfirlýsingin fengi að standa burtséð frá því hvernig næstu kosningar færu. Kosið er um átta þingsæti í júní og gæti þá Frjáls Kórea (LKP), stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, bætt við sig fylgi.

Nokkur ágreiningur er um ágæti yfirlýsingarinnar á þinginu. Demókratar, flokkur Moon, sitja einir í minnihlutastjórn, og hafa því ekki nógu marga þingmenn til að fullgilda yfirlýsinguna einir síns liðs. LKP hefur aftur á móti lofað því að gera allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir fullgildingu yfirlýsingarinnar.

Forsprakkar LKP hafa talað um fundinn með Kim sem leikrit. Sagt það sviðsett til að hjálpa Demókrötum í þing-, borgarstjóra og ríkis­stjórakosningum júnímánaðar. Moon sagði hins vegar að fullgilding þingsins á yfirlýsingunni væri nauðsynleg, ekki ætti að gera svo mikilvægt mál að pólitísku deilumáli.

Á meðal þeirra mála sem Kim og Moon komust að samkomulagi um var að vinna að kjarnorkulausum Kóreuskaga, að semja loksins um frið í Kóreustríðinu og að gera hin vígbúnu landamæri að friðarstað.

Í takt við síðastnefnda markmiðið tilkynnti suðurkóreski herinn að allir hátalarar hans á landamærunum, sem hafa varpað út áróðri yfir landamærin, verði fjarlægðir á næstunni. Slökkt var á hátölurunum í aðdraganda fundar Kim og Moon í Panmunjom.


Tengdar fréttir

Kjarnorkuvopn gegn loforði um enga innrás

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sagði Moon Jea-in, forseta Suður-Kóreu, að hann væri tilbúinn til að láta kjarnorkuvopn sín frá sér, gegn friðarsamkomulagi og því að Bandaríkin lofuðu að ráðast aldrei á Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×