Í skýringunum segir jafnframt að síðasta ár hafi verið „krefjandi“ og sú verði áfram raunin á næstu árum á meðan samstæðan haldi áfram að fjárfesta í nýjum lausnum sem muni skila auknum tekjum í framtíðinni. Samstæðan fórni þannig „skammtímahagnaði fyrir lengri tíma virðissköpun“.
Í bréfi Viðars Þorkelssonar, forstjóra Valitors, sem birt er með ársreikningnum, segir hann að stjórn félagsins hafi samþykkt í desember á síðasta ári nýja stefnu þar sem áhersla er lögð á auknar fjárfestingar í rannsóknum og þróun og jafnframt sölu- og markaðsmálum. Valitor hefur vaxið hratt á erlendri grundu á undanförnum árum, meðal annars með yfirtöku fyrirtækja, en sem dæmi keypti félagið bresku greiðslumiðlunarfyrirtækin Chip and Pin Solutions og IPS fyrir samtals 1.450 milljónir króna á síðasta ári.
Eva Cederbalk, stjórnarformaður Arion banka, sagði í viðtali við ViðskiptaMoggann fyrr á árinu að áform væru um frekari vöxt Valitors erlendis. Slíkt kallaði á umtalsverða fjárfestingu sem væri ekki án áhættu. „Ég myndi telja æskilegt fyrir framtíð þess félags að til dæmis fjölga í eigendahópi eða breyta eignarhaldi með einhverjum hætti,“ sagði hún.
Missa stóran viðskiptavin
Viðar nefnir að kortafyrirtækið hafi glímt við miklar áskoranir á síðasta ári. Fyrir það fyrsta hafi styrking krónunnar hækkað kostnað félagsins, en meirihluti tekna þess sé í erlendri mynt, og það sama megi segja um launahækkanir. „Greinendur gera ekki ráð fyrir því að krónan veikist í nánustu framtíð, þannig að til þess að bregðast við því greip Valitor til skipulagsbreytinga um haustið,“ nefnir Viðar í bréfinu.
Viðar greinir auk þess frá því að stærsta samstarfsfyrirtæki Valitors hafi tilkynnt félaginu að það hafi hug á því að bjóða sjálft upp á sömu þjónustu og Valitor veitir. Verður viðskiptum félaganna hætt á þessu ári. Valitor hefur frá sumrinu 2015 starfað sem færsluhirðir fyrir umrætt félag, hið bandaríska Stripe, en saman unnu félögin að því að innleiða greiðsluleiðina ApplePay í Bretlandi. Valitor var á sínum tíma eitt af sex fyrirtækjum úr hópi 150 fyrirtækja á Evrópumarkaði til þess að þjónusta ApplePay.
Segir Viðar að ákvörðun Stripe muni hafa neikvæð áhrif á tekjur kortafyrirtækisins. Í þriðja lagi nefnir forstjórinn að vaxandi samkeppni á greiðslumarkaði setji þrýsting á framlegð. Tækniþróun hafi aldrei verið örari en á síðustu árum og þá muni breytt löggjöf, sér í lagi nýjar reglugerðir Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu og persónuvernd, hafa mikil áhrif á markaðinn. Rekstrartekjur Valitors Holding námu tæpum 20 milljörðum króna á síðasta ári og jukust um 4,9 milljarða á milli ára. Hagnaður samstæðunnar nam 940 milljónum króna en hann skýrist að miklu leyti af hlutdeild Valitors í tekjum Visa í Evrópu en hlutdeildargreiðslan er tilkomin vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa í Evrópu í nóvember 2015. Stjórn greiðslukortafyrirtækisins lagði til að ekki yrði greiddur út arður í ár vegna síðasta rekstrarárs.
Ekki aðgreint frá Arion að sinni
Eins og greint hefur verið frá í Markaðinum réð andstaða innan stjórnkerfisins og á meðal sumra ráðherra ríkisstjórnarinnar mestu um að fallið var frá áformum um að aðgreina Valitor frá Arion banka áður en kemur að skráningu, þannig að bréf félagsins yrðu greidd út í arð til hluthafa.Einstakir ráðherrar mátu það svo að slík arðgreiðsla væri ekki til þess fallin að auka traust á fjármálakerfinu og færi mögulega gegn ákvæðum stöðugleikaskilyrða Kaupþings. Kaupþing, sem hyggst selja allt að 55 prósenta hlut sinn í bankanum í útboði síðar á árinu, taldi sér ekki fært að fara gegn afstöðu stjórnvalda í þessu máli