Erlent

Banna auglýsingar útlendinga fyrir þjóðaratkvæði um fóstureyðingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Auglýsingar stuðningsmanna og andstæðinga fóstureyðinga í Dyflinni.
Auglýsingar stuðningsmanna og andstæðinga fóstureyðinga í Dyflinni. Vísir/AFP
Samfélagsmiðlarisinn Facebook hefur ákveðið að banna útlendingum að kaupa auglýsingar í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu um fóstureyðingar á Írlandi. Ástæðan er meðal annars áhyggjur af því að bandarískir hópar sem eru andsnúnir fóstureyðingum reyni að hafa áhrif á úrslitin.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram 25. maí. Í henni taka Írar afstöðu til þess hvort að afnema eigi ákvæði stjórnarskrár landsins um bann við fóstureyðingum. Borið hefur á auglýsingum á netinu frá bandarískum hópum í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.

Útlendingar mega ekki láta fé af hendi rakna til stjórnmálasamtaka á Írlandi en lögin ná ekki til auglýsinga á samfélagsmiðlum, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.

Facebook hefur nú brugðist við umræðunni um auglýsingarnar og segir að frá og með fimmtudeginum muni fyrirtækið hafna auglýsingum sem tengjast þjóðaratkvæðagreiðslunni ef þær eiga uppruna sinn utan Írlands.

„Við skiljum hversu viðkvæm þessi kosningabarátta er og við munum leggja hart að okkur til að tryggja hlutleysi á öllum stigum. Markmið okkar er einfalt: að hjálpa til við að tryggja frjálsar, sanngjarnar og gegnsæjar kosningar um þetta mikilvæga málefni,“ segir í yfirlýsingu Facebook.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×