Skoðun

Lögbundin leiðindi

Gunnlaugur Bragi Björnsson skrifar
Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga er gjarnan rætt hvort Reykjavík eigi eingöngu að sinna lögbundnum verkefnum og hætta öllu öðru sem gjarnan er slegið upp sem „gæluverkefnum“.

Lögbundin verkefni Reykjavíkurborgar eru sannarlega mikilvæg og jafnvel grunnforsenda hnökralausrar sambúðar borgarbúa. Verkefnunum þarf því augljóslega að sinna og það enn betur en áður hefur verið gert. Tækifærin til að bæta þjónustu gagnvart íbúum borgarinnar eru nefnilega fjölmörg.

Þó verkefnin séu mikilvæg er ljóst að afþreyingar- og skemmtanagildi þeirra er takmarkað. Malbikun gatna, brunavarnir og úttektir heilbrigðiseftirlits verður seint skemmtiefni sem gefur lífinu í borginni lit. Það gera hins vegar skemmtileg verkefni á borð við borgar- og listahátíðir, skemmtanalíf, íþróttamót og svo framvegis.

Við í Viðreisn viljum borg sem er gott, skemmtilegt og eftirsóknarvert að búa í. Fólk vill einfaldlega frekar búa í og heimsækja borg sem iðar af fjölbreyttu mannlífi. Þess vegna leggjum við áherslu á að Reykjavík laði til sín fleiri fjölbreytta viðburði, t.d. á sviði lista, íþrótta, nýsköpunar og hönnunar. Þess vegna ætlum við líka að einfalda og þjónustuvæða leyfisveitingar í borginni og þannig auðvelda hugmyndaríkum einstaklingum að koma hugmynd í framkvæmd, t.d. þeim sem vilja opna veitinga-, tónleika- eða skemmtistaði.

Við erum líka opin fyrir frjálsari opnunartíma tónleika- og skemmtistaða fjarri íbúabyggð, t.d. á Grandanum sem er að byggjast upp sem blómlegt svæði lista, nýsköpunar, veitinga og skemmtana. Efling þeirrar þróunar á Grandanum er nefnilega raunhæf á komandi kjörtímabili á meðan loforð um uppbyggingu fjölda íbúða á sama svæði er í besta falli örvæntingarfull leið til að slá ryki í augu kjósenda.

Viðreisn vill einfaldari, skemmtilegri og skilvirkari Reykjavík þar sem þjónusta við borgarbúa er í forgrunni. Við bjóðum fram krafta okkar því við vitum að ef rekstur borgarinnar er í traustum höndum er hægt að sinna svo mörgu fleiru en bara lögbundnum leiðindum. Svo einfalt er það.

Höfundur skipar fjórða sæti á framboðslista Viðreisnar í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×