Erlent

Leikkonan Pamela Gidley er látin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pamela Gidley.
Pamela Gidley. Vísir/Getty
Bandaríska leikkonan Pamela Gidley, sem þekktust var fyrir hlutverk sitt sem Teresa Banks í Twin Peaks-kvikmyndinni Fire Walk With Me, er látin, 52 ára að aldri.

Í minningargrein sem fjölskylda Gidley birti á sunnudag kemur fram að hún hafi látist á heimili sínu í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum þann 16. apríl síðastliðinn, að því er fram kemur í frétt BBC. Dánarorsök hefur þó enn ekki verið gerð opinber.

Eins og áður kom fram var Gidley þekktust fyrir hlutverk sitt sem unglingsstúlkan Teresa Banks í kvikmyndinni Fire Walk With Me, forleik að hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Twin Peaks. Persóna Gidley var þó að endingu myrt en haft var eftir Gidley í viðtali árið 2016 að leikstjóri Twin Peaks, David Lynch, hafi sérstaklega óskað eftir því að hún tæki hlutverkið að sér.

Gidley lék í töluverðum fjölda kvikmynda á níunda áratug síðustu aldar, þ. á m. Dudes og Cherry 2000. Þá tók hún einnig að sér hlutverk í sjónvarpsþáttum á borð við The Pretender og CSI: Crime Scene Investigation. Þá var hún valin „fegursta stúlka í heimi“ í keppni á vegum Wilhelmina Models-fyrirsætuskrifstofunnar árið 1985.

Josh Brolin, meðleikari Gidley í kvikmyndinni Thrashin‘, minntist vinkonu sinnar hlýlega á samfélagsmiðlum í kjölfar fregna af andláti hennar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×