Erlent

Kóreuleiðtogarnir stefna á algera afkjarnorkuvæðingu eftir sögulegan fund

Kjartan Kjartansson skrifar
Vel hefur farið á með þeim Kim (t.v.) og Moon (t.h.) á fundi þeirra í dag. Þetta er fyrsti fundur leiðtoga ríkjanna í áratug.
Vel hefur farið á með þeim Kim (t.v.) og Moon (t.h.) á fundi þeirra í dag. Þetta er fyrsti fundur leiðtoga ríkjanna í áratug. Vísir/AFP
Stefnt er að algerri afkjarnorkuvæðingu Kóreuskagans í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoga Norður- og Suður-Kóreu eftir sögulegan fund þeirra í dag. Þá ætla þeir að binda formlegan endi á Kóreustríðið síðar á þessu ári.

Kim Jong-un varð fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu til að stíga fæti sunnan landamæranna frá því að Kóreustríðinu lauk á 6. áratug síðustu aldar. Hann og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, sammæltust um að gera vopnahléið sem batt enda á stríðið árið 1953 að varanlegu friðarsamkomulagi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Í yfirlýsingunni sem þeir sendu út eftir fundinn sögðu Moon og Kim að fjandsamlegum aðgerðum ríkjanna í garð hvors annars yrði hætt, hlutlausa beltinu á landamærum ríkjanna yrði breytt í „friðarsvæði“ með því að hætta linnulausum áróðursútsendingum þar og bæði ríki fækkuðu í herafla sínum á svæðinu.

Til viðbótar vilja leiðtogarnir koma á þríhliða viðræðum með Bandaríkjunum og Kína, koma á endurfundum fjölskyldna sem sundruðust í stríðinu, tengja ríkin betur með lestarteinum og vegum yfir landamærin og auka samstarf sitt í tengslum við íþróttamót eins og Asíuleikana sem fara fram á þessu ári.


Tengdar fréttir

Slökkva á áróðurshátölurunum

Suður-Kóreumenn slökktu í morgun á hátalarastæðunni sem stendur á landamærum ríkisins við Norður-Kóreu.

Vorið breiðist út um Kóreuskagann

Kim Jong-un gekk yfir landamærin til grannríkisins Suður-Kóreu í nótt. Með því varð hann fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu sem stígur fæti á suður-kóreska grundu síðan árið 1953, þegar ríkin tvö undirrituðu vopnahlé í Kóreustríðinu.

Vilji fyrir algerri afvopnun

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa tjáð nágrönnum sínum í suðri vilja sinn til þess að afkjarnorkuvæða Kóreuskaga alfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×