Lífið

Sama myndin vekur mismunandi viðbrögð

Benedikt Bóas skrifar
Rakel var að hengja myndirnar upp þegar Fréttablaðið leit inn í Norr11 þar sem sýningin verður.
Rakel var að hengja myndirnar upp þegar Fréttablaðið leit inn í Norr11 þar sem sýningin verður. Vísir/eyþór
„Viðbrögðin koma oft mjög mikið á óvart, og þá aðallega hvað þau eru ólík. Sama myndin getur þýtt sjálfsöryggi fyrir einum og streita fyrir öðrum,“ segir Rakel Tómasdóttir sem opnar sína fyrstu einkasýningu í Norr11 á Hverfisgötu í dag klukkan 18. Rakel hefur vakið töluverða athygli fyrir blýantsteikningar sínar en hún er dugleg að leyfa fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með framvindu hverrar myndar.

„Instagram er sá vettvangur sem mér finnst best að nota til að sýna teikningarnar mínar, bæði meðan ég vinn þær og þegar þær eru tilbúnar. Svo er það skemmtileg leið til að vera í sambandi við fólk sem er að fylgjast með manni,“ segir hún.

„Ég byrjaði á því að gera könnun þar sem ég spurði fylgjendur hvort þeir sæju eina eða tvær manneskjur á nokkrum myndum og það kom mér strax á óvart hvað niðurstöðurnar voru jafnar. Í kjölfarið bað ég fylgjendur um að túlka myndirnar og senda mér skilaboð með sinni túlkun.“



Rakel útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2016 úr grafískri hönnun og hefur síðan unnið sem hönnuður hjá tímaritinu Glamour auk annarra verkefna.

„Ég geri það meðvitað að skilja eftir pláss fyrir túlkun, ég segi t.d. aldrei hverjar mínar pælingar á bak við myndirnar eru og gef myndunum ekki nöfn heldur númera þær. Það er miklu skemmtilegra að fólk fái rými til að túlka þær eins og það vill,“ segir hún og bætir við að viðbrögðin sem hún fái við myndunum séu nánast eins misjöfn og þau eru mörg.

„Það er ótrúlega gaman að fólk skuli gefa sér tíma til að skoða myndirnar og velta þeim fyrir sér. Ég hélt alltaf að það væri mjög augljóst hvað ég væri að pæla með myndunum og hvaða tilfinningar ég væri að sýna með þeim. Mér leið alltaf eins og ég væri að opna mig með því að pósta þeim, en svo er víst ekki. Það er augljóst að hver og einn sér þær á sinn hátt.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×