Hanyie og Abrahim komu hingað til lands í desember 2016. Þar áður höfðu þau verið á flótta og bjuggu m.a. í Íran, Tyrklandi, Grikklandi og Þýskalandi. Haniye fæddist í flóttamannabúðum í Íran árið 2005 og er ríkisfangslaus.
„Þau eru örugglega enn þá að melta þetta en auðvitað eru þau alveg í skýjunum,“ segir Guðmundur Karl Karlsson, vinur feðginanna, í samtali við Vísi.

„Í september fengu þau allt í einu þriggja daga frest til þess að kveðja vini og svo átti bara að flytja þau strax úr landi, til Þýskalands, þannig að þetta er búið að vera ansi löng og erfið barátta.“
Guðmundur segir Hanyie og Abrahim himinlifandi með að búa loksins við öryggi. Nú taki svo við alvara lífsins, húsnæðis- og atvinnuleit svo eitthvað sé nefnt.
Mál feðginanna vakti mikla athygli í sumar en þá var haldin afmælisveisla fyrir Haniye á Klambratúni. Á þeim tímapunkti stóðu feðginin frammi fyrir því að vera send úr landi en í september síðastliðnum var brottvísuninni frestað. Þá var einnig samþykkt frumvarp á Alþingi um breytingar á útlendingalögum, sem fólu meðal annars í sér breytingar á dvalarleyfum í tilfelli barna, og í október var feðginunum tilkynnt að mál þeirra yrði tekið til efnismeðferðar.