Erlent

Rússar hafna niðurstöðunum alfarið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Breskir rannsakendur taka sýni af vettvangi í Salisbury.
Breskir rannsakendur taka sýni af vettvangi í Salisbury. Vísir/AFp
Eitrið sem notað var í árásinni á fyrrverandi rússneska gagnnjósnarann Sergei Skrípal og Júlíu dóttur hans í Salisbury í mars var einstaklega hreint Novichok-taugaeitur líkt og Bretar hafa haldið fram. Þetta staðfesti Stofnunin um bann við efnavopnum (OPCW) í gær.

„Niðurstöður greiningar rannsóknarstofa OPCW á umhverfis- og blóðsýnum sem teymi stofnunarinnar safnaði staðfesta fyrri niðurstöður rannsókna Breta á því um hvaða eiturefni er að ræða,“ sagði í samantekt sem OPCW birti.

Bretar höfðu beðið stofnunina um að rannsaka sýni af eitrinu. Samkvæmt tilkynningu frá OPCW höfðu Bretar enga aðkomu að rannsókninni sjálfri. Hún hafi farið fram á fjórum aðskildum rannsóknarstofum sem hafi allar skilað sömu niðurstöðu.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær að nú léki enginn vafi á því hvaða efnavopni var beitt og því væri ekki hægt að útskýra árásina á annan hátt en þann að rússnesk yfirvöld hefðu staðið að henni. Rússar einir hefðu getuna til þess, ástæðuna fyrir því og sögu sambærilegra árása.



Kvótmynd Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. Nordicphotos/AFP
Með gagnsæissjónarmið að leiðarljósi, sagði Johnson, báðu Bretar OPCW um að birta samantekt opinberlega og um að senda skýrsluna í heild á öll aðildarríki stofnunarinnar, Rússland þar með talið.

Sagði ráðherrann þetta gert þar sem Bretar hefðu ekkert að fela, öndvert við Rússa.

Yfirvöld í Moskvu hafa allt frá upphafi málsins sagst saklaus. Ekki var vikið frá þeirri línu í gær. Sagði María Sakarova, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að Rússar höfnuðu niðurstöðum OPCW í málinu alfarið. Þá væri engin ástæða til að trúa öðru en að þetta væri beint framhald herferðar breskra upplýsingastofnana gegn rússneska ríkinu.

„Í skýrslunni er ekki að finna neinar upplýsingar um hvernig, af hverjum og í hvaða ástandi þessi sýni voru tekin,“ sagði upplýsingafulltrúinn. Bætti hún því við að Rússar myndu ekki trúa neinum staðhæfingum um málið fyrr en þeir fengju að hafa beina aðkomu að rannsóknum.

Þá ýjaði Sakarova jafnframt að því að Skrípal væri haldið gegn vilja sínum á sjúkrahúsinu í Salisbury. Bretar hefðu algjörlega einangrað hann og enginn hefði fengið að sjá hann í rúman mánuð.

Skrípal-málið svokallaða hefur dregið dilk á eftir sér. Fjöldi Vesturlanda hefur vísað rússneskum erindrekum úr landi og þá svöruðu Rússar í sömu mynt. Ljóst er að Vesturlönd standa allflest með Bretum í málinu.

„Nú er það undir Rússum komið að svara spurningum okkar og taka þátt í þessu ferli á uppbyggilegan hátt,“ sagði upplýsingafulltrúi þýska utanríkisráðuneytisins í gær.

Júlía Skrípal er á batavegi en hún fékk að fara heim af sjúkrahúsi á mánudag. Í yfirlýsingu á miðvikudag sagðist hún enn þjást af eftirverkunum eitrunarinnar og að faðir hennar væri enn alvarlega veikur. Þá sagðist hún hafa hafnað boði rússneska sendiráðsins um að aðstoða hana. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×