Sebastian Vettel verður fremstur á ráspól þegar ræst verður í Kína í fyrramálið, þriðju keppni tímabilsins í Formúlu 1.
Vettel hefur unnið fyrstu tvær keppnir tímabilsins og því þegar kominn með þægilega sautján stiga forystu í stigakeppni ökuþóra. Vettel, sem ekur á Ferrari, náði besta tímanum í morgun í blálok tímatökunnar, rétt eins og í Barein um síðustu helgi.
Kimi Raikkönen, félagi Vettel hjá Ferrari, var í forystu þangað til og mátti sætta sig við að hafna í öðru sæti.
Mercedes lenti hins vegar í basli og náði ekki að halda í við Ferrari í morgun. Valtteri Bottas verður þriðji og heimsmeistarinn Lewis Hamilton fjórði. Hamilton þarf því að aka vel í keppninni á morgun til að gefa ekki enn frekar eftir í baráttunni við Vettel um heimsmeistaratitilinn - sem báðir hafa unnið fjórum sinnum á ferlinum.
Red Bull kom næst þar á eftir. Max Verstappen verður fimmti á ráspól og Daniel Ricciardo sjötti. Hér má sjá niðurstöðuna í tímatökunum á morgun.
Sýnt verður beint frá kappastrinum á Stöð 2 Sport klukkan 05.50 í fyrramálið.
