Innlent

Ráðstefna um umskurð drengja á þriðjudag

Sylvía Hall skrifar
Silja Dögg Gunnarsdóttir segist vera ánægð að hafa lagt frumvarpið fram.
Silja Dögg Gunnarsdóttir segist vera ánægð að hafa lagt frumvarpið fram. Vísir/Pjetur/Getty
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins segir það hafa verið ástæða til þess að taka umræðuna um umskurð drengja hérlendis miðað við viðbrögð við frumvarpi hennar um að banna aðgerðina hérlendis. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi í dag.

„Þetta hefur vakið upp sterk viðbrögð hér á landi og víðar. Það er hlutverk okkar þingmanna að ræða þau mál sem koma upp í samfélaginu hverju sinni og leggja þau á borðið og skoða hvort að Alþingi telji ástæðu til að taka þau lengra og mögulega breyta lögum eða setja ný lög.“

Frumvarpið er nú komið fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og bárust fjölmargar umsagnir um málið, meðal annars frá hinum ýmsu trúfélögum en Samráðsvettvangur trú- og lífsskoðunarfélaga hefur boðað til ráðstefnu í Norræna húsinu um umskurð drengja á þriðjudaginn næstkomandi.

Markmiðið samráðsvettvangsins er meðal annars að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli trúfélaga, lífsskoðunarfélaga og fólks með mismunandi trúarviðhorf hér á landi og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi, að því er segir í tilkynningu frá aðstandendum ráðstefnunnar.

Ræðumenn á ráðstefnunni koma úr ýmsum áttum, bæði af innlendum og erlendum vettvangi og mun ráðstefnan fara fram á ensku. Á meðal ræðumanna verða fulltrúar frá samtökum gyðinga og múslima, alþingismenn, læknar, umboðsmaður barna og fulltrúar mannréttindasamtaka. 

Ánægð með frumvarpið þrátt fyrir gagnrýnisraddir

Í samtali við fréttastofu segir Silja Dögg flesta þeirra sem til máls taka á ráðstefnunni samkvæmt dagskrá hafa þegar sent inn sína umsögn við frumvarpið og leggist flestir gegn banninu.

„Þarna erum við að tala um mannréttindi, við erum að tala um trúfrelsi, trúarbrögð, réttindi barna, líkamshelgi og þetta er mjög spennandi mál. Ég er mjög ánægð að hafa lagt þetta fram.“ sagði Silja Dögg í Sprengisandi í dag.

Ráðstefnan fer fram í Norræna húsinu á þriðjudaginn klukkan 13 og er opin öllum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×